Náttúruöflin leiða saman hesta sína

Skálmaldarmenn ásamt Hymnodiu á sviði Eldborgar að loknum tónleikum fyrr í þessum mánuði, með áhorfe…
Skálmaldarmenn ásamt Hymnodiu á sviði Eldborgar að loknum tónleikum fyrr í þessum mánuði, með áhorfendur í baksýn. Mynd/Árni F. Sigurðsson.

Þungarokkshljómsveitin Skálmöld og kammerkórinn Hymnodia leiða saman hesta sína og ætla að bjóða Norðlendingum upp á brot af því besta með hljómsveitinni á stórtónleikum í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri 1. febrúar nk.

Böbbi

Hamhleypurnar í Skálmöld hafa staðið í stórræðum undanfarin misseri. Í haust héldu þeir tónleika í Heimskautagerðinu á Raufarhöfn sem helst verður lýst sem kynngimögnuðum.

Rétt komnir úr risaverkefni

Fyrr í þessum mánuði réðust meðlimir Skálmaldar í það stórvirki að spila öll lög af hljóðversplötum sínum sex  á þremur kvöldum í Eldborgarsal Hörpu ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands. Að því verkefni kom einmitt líka kammerkórinn Hymnodia sem söngvari Skálmaldar, Björgvin Sigurðsson lýsir sem náttúruafli.

„Já, við tókum okkur til og spiluðum í Eldborg allar plöturnar, öll lögin á þremur kvöldum,“ segir Björgvin í samtali við Vikublaðið og viðurkennir að verkefnið hafi tekið á.

Þurftu að rifja upp sum laganna

„Þetta var metnaðarfullt, því verður ekki neitað og við þurftum að æfa vel fyrir þetta verkefni enda á listanum mörg lög sem við höfum lítið sem ekkert spilað nema í stúdíói. Við kunnum svona flest lögin en þó ekki öll,“ segir Björgvin og bætir við að yfirleitt hafi verið haldnir sérstakir útgáfutónleikar við útgáfu platna þeirra þar sem öll lögin eru leikin. „Nema fyrir þar síðustu plötu, Sorgir sem kom út 2018, þá vorum við ekki með eiginlega útgáfutónleika. Þannig að það voru lög á þeirri plötu sem við höfðum aldrei spilað nema í stúdíói og meira að segja lög sem við höfðum aldrei spilað allir saman. Það var smá brekka að koma þessu af stað,“ segir hann.

Skálm og hymn

Skálmöld og Hymnodia á æfingu fyrir maraþon tónleikana í Hörpu. Mynd/Garðar Þór Eiðsson.

 

 Sögulegt afrek

Aðspurður hvort það sé algengt að stórsveitir á borð við Skálmöld ráðist í spila alla sína flóru af lögum á viðlíka tónleikum segir Björgvin að það sé reyndar ekki mikið um það.

„Nei kannski ekki, maður hefur séð hljómsveitir taka plötu í heild sinni sem þeir gáfu út fyrri kannski 20 árum og túra með þá plötu í heild sinni en þetta er allt draslið á öllum okkar plötum, það er kannski aðeins meira,“ segir hann og hlær.

Norður yfir heiðar

Nú hafa þeir ákveðið að heiðra Norðlendinga með nærveru sinni í febrúar og taka með sér Hymnodiu inn í það verkefni.

„Jú, Við höfum unnið með Hymnodiu áður. Við vorum með þeim á útgáfutónleikum fyrir plötuna Börn Loka árið 2013. Svo í þessi tvö skipti sem við höfum verið með Sinfóníunni, þá hefur Hymnodia verið partur af þessum stóra kór sem við vorum með. Hymnodia er náttúrulega náttúruafl, þau eru alveg ótrúlega góð og besta við hymnodiu er hvað þau eru öll til í að gera þetta með okkur. Þau gefa engan afslátt og eru með okkur alla leið í þessu sem er svo fallegt,“ útskýrir Björgvin.

Framlengja samstarfið

Hymnodia er kammerkór sem starfar á Akureyri og er búinn að vera til all langan tíma. Þau hafa verið að halda tónleika mikið fyrir norðan og út um allt hreinlega. Nú ætla Skálmöld að framlengja þetta samstarf og leyfa okkur Norðlendingum að njóta.

„Já, við ætlum að nýta okkur það að vera búnir að æfa upp allt draslið og það með kórnum og koma í Hof á Akureyri 1. febrúar. Við ætlum að bjóða upp á tónleika sem eru kannski það besta sem Skálmöld hefur upp á að bjóða (e. best of) og í bland lög sem hafa sjaldnar verið spiluð á tónleikum en það eru lög þar sem kórinn fær virkilega að njóta sín. Ég hvet fólk til að koma og verða vitni að stórkostlegu giggi,“ segir Björgvin að lokum

Miðasala hófst á föstudag.

Nýjast