20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
„Munið bara að vera góð hvert við annað“
Vikublaðið leitaðist eftir að fá einkaviðtal við einn jólasveinanna þrettán sem nú eru flestir mættir til byggða. Einn þeirra brást snaggaralega við þeirri ósk og afraksturinn fer hér á eftir.
Hvaða jólasveinn ert þú?
Ég heiti Þvörusleikir og er Leppalúðason.
Hvernig er lífið hjá ykkur bræðrum á tímum covid?
Lífið gengur nú bara sinn vanagang. Við kúldrumst saman uppi í helli. Við höfum nú sloppið alveg við þessa kóvíðu eða kórónu eða hvað hún nú heitir. Enda vorum við farnir aftur heim þegar hún kom til landsins.
Hvað finnst þér skemmtilegast að gefa í skóinn?
Mér finnst nú allra skemmtilegast að gefa það sem gleður. Oft þarf ekki nema eina safaríka mandarínu og litlu krílin ljóma af gleði og kátínu. Það er langtum skemmtilegast.
Hvert er uppáhalds jólalagið þitt?
Uppáhaldslag okkar bræðra er þarna mamman... þú veist... Ég sá mömmu kyssa jólasvein.
Áttu grímu svo þú getir komist í að gefa í skóinn?
Já, já, já, já, biddu fyrir þér góði. Við eigum alveg heilan helling af grímum í hellinum. Ég hef reyndar ekki enn lært að setja á mig svona apparat en ætli maður verði ekki að láta á það reyna þegar maður arkar af stað.
Hvað finnst þér skemmtilegast við jólin?
Það er að sjá einlæga jólagleði í augum barnanna þegar við bræður fáum að heimsækja þau. Svo finnst mér nú líka gaman þegar við bræður hittumst allir á jólanótt og horfum yfir byggðina ofan úr heiði og njótum þess að vera saman. Við þurfum reyndar að treysta á að Þórólfur vinur okkar verði búinn að fjölga upp í allavega 13 manna samkomur, annars þurfum við að skipta hópnum... Það er ekki nógu gott. Við höfum verið allir saman á jólanótt í fleiri hundruð ár.
Hver er besti söngvarinn af ykkur jólasveinunum?
Jahá! Þegar stórt er spurt... Ætli við, ég sjálfur og Kertasníkir, séum ekki svona einna flinkastir í söngnum...
Hafa jólin áður verið með breyttu sniði hjá þér?
Já, auðvitað voru þau allt öðruvísi hérna áður fyrr, sko áður en að við fórum að gefa í skóinn. Þá völdum við okkur bara einhvern einn landshluta og hrekktum fólkið í sveitunum. Ég var vanur að skella mér suður og atast aðeins í Grindvíkingum en nú þurfum við náttúrulega að heimsækja öll börnin, klæðum okkur í sparifötin og erum svona allajafna frekar prúðir.
Er Grýla með sóttvarnirnar á hreinu?
Sko, við höfum allavega haldið góðri fjarlægð frá gömlu undanfarið... En nei, hún er nú ekki mjög upptekin af því enda höfum við verið í einangrun síðustu 12 mánuði eða svo. En ætli við grípum ekki með okkur handspritt á heimleiðinni – en sápa er hins vegar bönnuð í Grýluhelli; pabbi gamli er með ofnæmi fyrir sápu.
Hvað finnst þér best að borða á aðfangadag?
Á aðfangadag höfum við bræður deilt því sem við höfum náð okkur í .... nei, ég meina fengið lánað í bæjum landsins. En annars finnst mér rjúpur ansi góðar með kartöflum og brúnni.
Hvernig undirbýrðu þig fyrir jólin?
Við bræður byrjum svona um miðjan október að gera og græja, stoppa í sokka og gera við rauðu skikkjurnar ef það þarf. Svo fljótlega upp úr því verðum við okkur út um alls kyns smámuni til að hafa í pokanum þegar við förum til byggða. Svo stelumst við nú stundum til byggða þegar desember gengur í garð en bara í stutta stund í einu því mamma má ekki vita það. Svo borðum við góða máltíð öll saman kvöldið áður en Stekkjastaur leggur af stað.
Hver af ykkur bræðrum er mesti prakkarinn?
Hurðaskellir hlýtur þann heiður enda hefur hann gert í því að skjóta fólki skelk í bringu í ansi mörg ár!
Hver er uppáhalds jólamyndin þín?
Hmmm, jólamyndin? Ætli það sé ekki bara myndin sem við fjölskyldan tökum af okkur áður en við leggjum af stað.
Ertu með einhver skilaboð til krakka á þessum tímum?
Krakkar mínir. Munið bara að vera góð hvert við annað og njóta þess að vera saman yfir hátíðirnar. Vonandi næ ég nú að heilsa eitthvað upp á ykkur í litlum hópum.
Greinin birtist fyrst í Jólablaði Vikublaðsins sem unnið var af nemendum í fjölmiðlafræði við HA