Með bros á vör og gleði í hjarta

„Þótt söguþráðurinn hafi ekki verið merkilegur tókst með hæfilegum skammti af ruglingi, sem borinn v…
„Þótt söguþráðurinn hafi ekki verið merkilegur tókst með hæfilegum skammti af ruglingi, sem borinn var uppi af prýðilegri frammistöðu leikaranna, að kitla hláturtaugar áhorfenda sem fóru heim með bros á vör og gleði í hjarta," segir m.a. í leikdómi.

Í ár eru liðin níutíu ár frá því að fyrsta leikverkið var sett upp í Hörgárdal. Reglulegt sýningarhald hófst þó ekki fyrr en níu árum síðar og hafa hin ýmsu félög staðið fyrir leiksýningum á þeim árum sem liðin eru. Undanfarna tvo áratugi hefur Leikfélag Hörgdæla átt veg og vanda af sýningahaldinu. Í ár er það farsinn Sex í sveit eftir Frakkann Marc Camelotti sem varð fyrir valinu. Camelotti var afkastamikið leikskáld þar til hann lést árið 2003. Sex í sveit var fyrst sýnt í París og hét þá Pyjamas Pour Six á frummálinu. Verkið hefur verið sýnt víða um heim við miklar vinsældir m.a. í Apollo-leikhúsinu í London þar sem verkið gekk í heil sex ár. Þekktasta verk Camelotti er sennilega Sexurnar eða Boeing-Boeing eins og það heitir á frummálinu. Það hefur verið sýnt hérlendis undir heitinu Einn koss enn og ég segi ekki orð við Jónatan.

Söguþráðurinn í Sex í sveit er ekki merkilegur en það skiptir minnstu enda um dæmigerðan og bráðsmellinn farsa að ræða. Við fylgjumst með eiginmanninum Benedikt, sem leikinn er af Bernharð Arnarsyni, skipuleggja helgi með viðhaldinu, í sumarhúsi fjölskyldunnar í Hörgársveit. Benedikt stendur í þeirri bjargföstu trú að Þórunn eiginkona hans, leikin af Stefaníu Elísabetu Hallbjörnsdóttur, verði fyrir austan hjá aldraðri móður sinni helgina sem leikurinn gerist. Auðvitað þarf ekki nema eitt símtal frá Veisluþjónustunni á Akureyri til að allt fari í handaskolum. Við það bætist „óvænt” heimsókn Ragnars, „besta“ vinar þeirra hjóna sem leikinn er af Þránni Sigvaldasyni. Þegar Sólveig frá Veisluþjónustunni, leikin af Önnu Sæunni Ólafsdóttur, bætist í hópinn færist heldur betur fjör í leikinn.

Það er ekki ástæða til að rekja söguþráðinn frekar en fljótlega kemur í ljós að viðhöldin eru fleiri en eitt og úr þessari flækju verður hin besta skemmtun. Nokkru fyrir hlé bætist svo Sóley, „upphaflega“ viðhaldið, í hópinn, leikin af Arnþrúði Eik Helgadóttur og undir lok sýningarinnar birtist Benóný eiginmaður Sólveigar, leikinn af Stefáni Jónssyni. Þá eru allir mættir á svæðið og áhorfendum má vera ljóst að töfratalan sex á hér við fjölda persóna og leikenda þótt sjá megi glitta í aðra og tvíræðari merkingu orðsins ef vel er gáð. Hafi manni þótt staðan flókin með fjórum persónum framan af leiknum þá virtist engin leið út úr völundarhúsi misskilnings og blekkinga eftir að Sóley og Benóný bættust í hópinn.

Sex í sveit býður upp á flest það sem góður farsi þarf að hafa þ.e. hraða bæði í framvindu og framsögu, hárnákvæmar innkomur leikara og skýra framsögn þótt  flækjustig texta væri með þeim hætti að það biði heim tungubrjótum á færibandi. Sex í sveit er farsi sem virkar og virkar vel. Leikarar stóðu sig allir með prýði og ekki ástæða til að gera upp á milli þeirra. Þó ber að nefna sérstaklega Þráinn Sigvaldason en hann sannfærði áhorfendur um að eftirsóknarverðir piparsveinar og miklir elskhugar þurfa ekki alltaf að vera miklir fyrir mann að sjá. Þráinn þurfti að auki að romsa upp úr sér skýringum og misskilningi í löngum bunum þannig að trúverðugt væri. Það tókst og gott betur en meðferð leikaranna allra á samanknúsuðum texta verksins var reyndar öll til fyrirmyndar.

Hörður Sigurðsson leikstýrir verkinu og ferst honum það vel úr hendi. Það er ljóst að hann hefur gott auga fyrir nákvæmum tímasetningum og frammistaða leikaranna hlýtur að mega skrifast að miklu leyti á kreditlista leikstjórans.

Eins og Bernharð Arnarson, formaður stjórnar Leikfélags Hörgdæla, segir í inngangsorðum sínum í sýningarskrá þá fara langflestir í leikhús til að skemmta sér. Til að áhugamannaleikhús geti boðið upp á kvöldskemmtun á borð við Sex í sveit þurfa margir að leggja gjörva hönd á verk. „Ekki er nóg að hafa bara leikstjóra og nokkra leikara ...“ til að setja upp sýningu sem hiklaust er hægt að mæla með við alla þá sem gaman hafa af góðu leikhúsi. Semsagt, þótt söguþráðurinn hafi ekki verið merkilegur tókst með hæfilegum skammti af ruglingi, sem borinn var uppi af prýðilegri frammistöðu leikaranna, að kitla hláturtaugar áhorfenda sem fóru heim með bros á vör og gleði í hjarta.

-Ágúst Þór Árnason

 

Nýjast