20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
MAk hækkar greiðslur til hljóðfæraleikara um rúm 60%
Menningarfélag Akureyrar (MAk) hefur ákveðið að hækka greiðslur til verkefnaráðinna hljóðfæraleikara Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands um rúm 60% og nær það til verkefna sem tilheyra tónleikadagskrá sveitarinnar.
Auk þess mun Menningarfélagið hækka greiðslur um rúmlega 10% til hljóðfæraleikara fyrir verkefni undir merkjum hliðarsjálfs sveitarinnar, SinfoniaNord. Þau verkefni snúast um upptökur á sinfónískri kvikmyndatónlist og sinfóníska þjónustu til viðburðarhaldara, hljómsveita, tónskálda og upptökustjóra.
Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar, segir í samtali við Vikudag að þetta sé stórt skref fram á við í kjaramálum hljóðfæraleikara hér á landi.
„Það er orðið löngu tímabært að greidd sé sama upphæðin fyrir sömu vinnuna á landinu öllu. Hér á Akureyri hafa skapast aðstæður til að hækka greiðslur vegna fjölda og stórra verkefna. Þetta er risa skref því þetta er í fyrsta sinn á Íslandi þar sem greitt er það sama fyrir sömu vinnuna hjá sinfónískum hljóðfæraleikurum hvar sem er á landinu,“ segir Þorvaldur og bætir við:. „Þetta gerir það að verkum að hljómsveitarmeðlimir geta valið það að spila meira og sinna annarri vinnu minna. Og flestir tónlistarmenn vilja spila meira.“ Í Sinfóníuhljómsveit Norðurlands er um 20 manna kjarni sem sem býr eða er ættaður frá Norðurlandi, auk rúmlega 25 hljóðfæraleikara í viðbót sem taka reglulega þátt í verkefnum sveitarinnar.
Næsta tónleikaár lítur vel út
Stóru tónleikaári hjá Sinfóníuhljómsveit Norðurlands er nú lokið og sló sveitin botninn í tónleikárið með flutningi stórvirkisins, sem oft hefur verið nefnt drottning allra tónverka, Matteusarpassíu Jóhanns Sebastians Bachs í Hofi um páskana. Á starfsárinu var uppselt á 14 tónleika sem hljómsveitin tók þátt í. Þorvaldur Bjarni segir að næsta tónleikaár líti vel út. „Þetta fer svolítið eftir framboði og eftirspurn en það liggur allavega fyrir nú þegar um 6-8 tónleikar áður við kynnum dagskrána. Þannig að ég held að næsta tónleikaár verði ekki minna,“ segir Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson.