20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
„Maður veit hvað tónlist gefur fólki mikið“
Tónlistarskóli Húsavíkur fór í haust af stað með afar áhugavert verkefni sem miðar að því að gera tónlistarnám aðgengilegra fyrir fólk með sértækar stuðningsþarfir. Verkefnið er að finnskri fyrirmynd en mjög góð aðsókn hefur verið í námið. „Jú, mjög góð aðsókn í þetta hjá okkur. Það eru 16 nemendur sem hafa skráð sig. Þetta eru notendur miðjunnar og fleiri íbúar sveitarfélagsins,“ segir Guðni Bragason, skólastjóri Tónlistarskóla Húsavíkur.
Í Finnlandi er starfræktur tónlistarskóli sem heitir Music Center Resonaari og er sérstaklega ætlaður fólki með sértækar stuðningsþarfir. Skólinn býður í dag yfir 300 nemendum þjálfun á hljóðfæri og kennslu í samspili en nemendur fá tvær kennslustundir í viku. Skólinn kemur einnig að þróun tónlistarnáms í Finnlandi í samstarfi við sérfræðinga og tónlistarkennara í heimalandinu og erlendis. Guðni segir að finnski skólinn hafi miðlað að þekkingu sinni við skipulagningu námsins á Húsavík.
Hóf störf í sumar
Guðni Bragason hóf störf sem skólastjóri Tónlistarskólans á Húsavík í júlí. Guðni stundaði á árunum 1994-2002 nám við tónlistarskóla FÍH þar sem hann lauk 7. stigi á trompet, 4. stigi á rafbassa, 3. stigi á trommur/slagverk og 2. stigi á jasspíanó. Guðni hefur frá árinu 2000 kennt tónmennt og á hin ýmsu hljóðfæri í Smáraskóla, Tónlistarskóla Húsavíkur, Þingeyjarskóla og Tónlistarskóla Eyjafjarðar. Á árunum 2011-2015 starfaði Guðni sem deildarstjóri tónlistardeildar Hafralækjarskóla. Guðni hefur auk þess mikla reynslu af þátttöku í og umsjón með tónleikum, stjórnun kóra, hljómsveita og skipulagningu viðburða.
Fljótlega eftir að Guðni hóf störf setti hann sig í samband við finnska skólann sem getið er að ofan og hefur síðan verið að undirbúa tónlistarnám fyrir fólk með sértækar stuðningsþarfir í samstarfi við félagsþjónustu Norðurþings og Þekkingarnet Þingeyinga.
Guðni segir að undirbúningur verkefnisins hafi gengið vonum framar.
Allir njóti sömu tækifæra
Guðni leggur ríka áherslu á mikilvægi tónlistar í samfélaginu og það sé hlutverk Tónlistarskólans að gera tónlistarnám aðgengilegt fyrir alla. „Þetta verkefni felst fyrst og fremst í því að fólk með sértækar stuðningsþarfir njóti sömu tækifæra og aðrir þegar kemur að tónlistarnámi,“ segir hann og bætir við að það eigi ekki að vera spurning að Tónlistarskóli Húsavíkur eigi að vera fyrir alla.
Námið hefur þegar verið kynnt fyrir væntanlegum notendum og segir Guðni að ekki hafi staðið á viðbrögðum. Nú þegar hafi 16 nemendur verið skráð til leiks og hann hlakki mikið til að hefjast handa. Hann segir að nýju nemendurnir hafi valið sér hljóðfæri til að læra á og þar ráði fjölbreytnin ríkjum. „Þetta er bara ótrúlega blandað, þau eru að velja sér söng og gítar, harmónikku og píanó svo eitthvað sé nefnt,“ segir Guðni og bætir við að svo verði námið þróað nánar eftir þörfum hvers og eins.
„Við erum svo lánsöm að vera í samstarfi við þennan skóla í Finnlandi, sem er svona tónlistarmiðstöð fyrir fólk með sérþarfir. Ég er mjög spenntur fyrir því samstarfi en við höfum einmitt fundað með fulltrúum þeirra í gegnum fjarfundarbúnað. Það er afar mikilvægt að geta sótt í reynslubrunn kollega okkar í Finnlandi sem munu miðla af reynslu sinni á meðan við erum að þróa okkar eigin leiðir,“ segir Guðni.
Verkefnið fyrsta sinnar tegundar
Þetta er í fyrsta sinn sem Tónlistaskóli Húsavíkur ræðst í verkefni af þessu tagi þar sem sérstaklega er miðað að því að ná til fólks með sértækar stuðningsþarfir. „Það hefur alltaf verið einn og einn sem hefur komið til okkar úr þessum hópi í gegnum tíðin, en Tónlistarskólinn á að vera fyrri alla og þetta er okkar leið til að gera námið aðgengilegra einstaklingum sem hafa áður átt erfiðara með að sækja til okkar nám,“ segir Guðni og bætir við að aðkoma Þekkingarnets Þingeyinga sé afar mikilvægt en ÞÞ mun koma að fjármögnun verkefnisins.
„Við fórum af stað með þetta verkefni fljótlega eftir að ég byrjaði sem skólastjóri af því að maður veit hvað tónlist gefur fólki mikið og því brýnt að allir hafi jafnt aðgengi að tónlistarnámi,“ útskýrir Guðni og bætir við að verkefnið verði þannig uppbyggt að notendur verði alltaf með sinn persónulega stuðningsfulltrúa á vegum félagsþjónustunnar. „Þannig tryggjum við að nemendurnir fái sem mest út úr náminu.“
Þekkingarnetið aðstoðar með fjármögnun
Hilmar Valur Gunnarsson, verkefnastjóri hjá Þekkingarneti Þingeyinga segir í samtali við Vikublaðið að ÞÞ hafi lengi verið með samning við Fjölmennt um stuðning við námskeiðahald fyrir fólk með sértækar stuðningsþarfir. „Þar er ráðstafað fé til námskeiðahalds fyrir einstaklinga með sértækar stuðningsþarfir. Við erum búin að halda í samstarfi við félagsþjónustu Norðurþings í mörg ár, fjölbreytt námskeið fyrir notendur Miðjunnar á Húsavík. Þau komu til okkar og kynntu fyrir okkur þessa hugmynd í samstarfi við Tónlistarskólann. Þetta er ákveðið tilraunaverkefni til áramóta. Við í rauninni komum að þessu bara með fjármagn í gegn um fjölmennt,“ útskýrir Hilmar og bætir við að samstarf við félagsþjónustuna sé ekki ný af nálinni. „Við höfum verið að aðstoða við að setja upp leikrit og námskeiðahald af ýmsum toga. Þessi hugmyndi kom upphaflega frá Guðna og okkur líst mjög vel á þetta,“ segir Hilmar.