„Maður gerir ekki neitt fyrir neinn sem gerir ekki neitt fyrir neinn!“
í Spurningaþraut Vikublaðsins #18 er víða komið við
-
Þessi brú á Norðurlandi er komin nokkuð til ára sinna en hún hefur verið nokkuð í umræðunni upp á síðkastið vegna umferðartakmarkana um hana. Yfir hvaða fljót liggur brúin?
-
Fótboltastrákarnir í KA fara vel af stað í Sambandsdeild Evrópu en á dögunum lögðu þeir liðið Connah's Quay Nomads samanlagt 4-0 og eru því komnir í aðra umferð keppninnar. En hvaðan eru þessir mótherjar KA.
-
Hverjir verða mótherjar KA í næstu umferð sömu keppni?
-
Ein í viðbót um Evrópuævintýri KA manna; Hvar spilar KA sína „heimaleiki“ í Sambandsdeildinni evrópsku?
-
Nýr bankastjóri Íslandsbanka hefur stigið fram voða „sorrý“ yfir því að bankinn hafi staðið í því að selja hluti ríkisins í sjálfum sér. En hvað heitir þessi nýji bankastjóri?
-
Hvaða söngkona flutti framlag Íslands í Eurovision árið 2003?
-
Og hvað heitir lagið sem hún flutti?
-
Júlímánuður hefur verið óþarflega kaldur og vætusamur en þá er gott að muna eftir lagi sem hljómsveitin Grafík gerði frægt á níunda áratug síðustu aldar; „Mér finnst rigningin góð“ – eða það hefur lagið yfirleitt verið kallað. Titill lagsins er þó allt annar, hver er hann?
-
Helgi Björnsson söngvari sveitarinnar er einnig mjög ágætur leikari og hefur m.a. leikið í mörgum frábærum íslenskum bíómyndum. Ein þeirra er Sódóma Reykjavík sem verðskuldað hefur hlotið költ-status. Söguþráður myndarinnar hverfist um örvæntingafulla leit að hversdagslegum hlut. Hver er hluturinn? Sérstakt költmyndastig fæst fyrir að nefna framleiðanda hlutarins.
-
Hver leikstýrði myndinni?
----
Svör.
- Skjálfandafljót.
- Wales.
- Dundalk frá Írlandi
- Í Úlfarsárdal, en næsti leikur gegn Írunum fer einmitt fram á næsta fimmtudag.
- Jón Guðni Ómarsson.
- Birgitta Haukdal.
- Open Your Heart. Íslenska útgáfan sem hljómaði í forkeppninni hér á landi heitir Segðu mér allt, og það dugar að sjálfsögðu til líka.
- Húsið og ég.
- Sjónvarpsfjarstýring, költstigið fæst fyrir að muna að þetta var Samsung fjarstýring.
- Óskar Jónasson.