Lundinn kominn til Grímseyjar

Mynd/Akureyri.is
Mynd/Akureyri.is

Lundinn er farinn að sækja heim að varpslóðum við heimskautsbaug eftir vetrardvöl á hafi úti en í Grímsey er ein af stærstu lundabyggðum Íslands. Annar svartfugl kom þegar í mars til að tryggja sér hreiðurstæði og lundinn mætti um helgina. Frá þessu er greint á vef Akureyrarbæjar.

Svafar Gylfason, íbúi í Grímsey sem er við grásleppuveiðar þessa dagana, segir í samtali við vef bæjarins að mikill fjöldi fugla sé mættur og björgin og bjargbrúnirnar séu þakin af fugli. Fuglinn virðist vel á sig kominn enda hefur verið mikið um loðnu við eyjuna og því nægt æti fyrir fuglinn.

Veðrið í Grímsey hefur verið frekar rysjótt og varla snjór að ráði. Yfirleitt er frostlítið í Grímsey og sjaldnast meira en 3ja stiga frost. Undanfarnar vikur hefur þó verið óvenju kalt með með allt að 10 gráðu frosti. Í dag er hins vegar blíðviðri við heimskautsbauginn, sól og stilla, og frostbarin björgin iða af lífi.

Nýjast