„Lögreglan handjárnuð, í það minnsta“

Slökkviliðið á Akureyri stendur fyrir söfnuninni Gengið af göflunum - Gengið til góðs. Mynd/ Árni Fr…
Slökkviliðið á Akureyri stendur fyrir söfnuninni Gengið af göflunum - Gengið til góðs. Mynd/ Árni Friðriksson.

Starfsmenn Slökkviliðs Akureyrar hafa skorað á lögregluna á Akureyri í fótboltakeppni í tengslum fjáröflunarverkefnið Gengið af göflunum – gengið til góðs. „Við í slökkviliðinu verðum í fullum herklæðum með loftkúta og maska og lögreglan handjárnuð, í það minnsta! Leikar standa þar til að loftið klárast hjá þrem af fjórum liðsmönnum slökkviliðsinns.  Þetta verður eitthvað !!!!“ Segir á Facebooksíðu söfnunarinnar. Leikurinn hefst núna klukkan tíu við Oddeyrarskóla.

Slökkviliðið á Akureyri hefur um þessar mundir staðið fyrir ýmsum uppákomum. Um verslunarmannahelgina ætla slökkviliðsmenn að ganga Eyjafjarðarhringinn í reykköfunargöllum en það er um um 40 kílómetra leið. Tilgangurinn er að hjálpa til við söfnun fyrir nýjum neyðarflutningsbúnaði fyrir veika nýbura og fyrirbura, svokallaða ferðafóstru fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri.

Verkefnið  hefur fengið nafnið Gengið af göflunum – gengið til góðs og fylgjast má með því á Facebook. „Við byrjuðum í raun fyrir um fjórum vikum. Þá tókum við Kjarnaskógsgöngu. Við gengum gönguhringinn í Kjarnaskógi eins langt og við komumst á einum súrefniskúti í reykkafarabúningum. Það var líka gert svo við gætum gert okkur betur grein fyrir hvað við vorum að komast langt á einum kút. Þá getum við nokkurn veginn tímasett okkur úr bænum og í bænum þegar við förum Eyjafjarðarhringinn,“ segir Hörður Halldórsson, slökkviliðsmaður í samtali við Vikudag.

Verkefnið er unnið í góðu samstarfi við Viðburðastofu sem sér um hátíðardagskrána fyrir verslunarmannahelgina á Akureyri. „Við munum labba af stað frá Ráðhústorgi við einhverja athöfn. Svo göngum við Eyjafjarðarhringinn og ljúkum göngunni aftur á Ráðhústorgi,“ segir Hörður og bætir við:

„Við byrjuðum einmitt í Kjarnaskógi og gengum um það bil tvo hringi. Ég labbaði 4,2 km á einum kút. Síðan tókum við í þarsíðustu viku þrekæfingu í Átaki í reykköfunargalla, það var mjög gaman. Þá mældum við einmitt hvað við endumst í reykköfun í fullu úthaldi.“

 

Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið geta lagt fram frjáls framlög á eftirfarandi reikning í eigu Hollvina SAk sem er eyrnamerktur fyrir þessa söfnun:.
Reikningur 0565-14-405630
Kennitala 640216-0500 

Nýjast