Ljótu hálfvitarnir halda tvenna útgáfutónleika
„Þegar gefnar eru út plötur er tilvalið að halda útgáfutónleika. Raunar má segja að það séu einu skiptin þar sem slíkt er siðferðilega réttlætanlegt,“ segir í tilkynningu um tónleika Ljótu hálfvitanna sem fagna útgáfu sinnar sjöttu plötu, Hótel Edda, með tvennum útgáfutónleikum föstudaginn 3. og laugardaginn 4. júlí á Græna hattinum.
Þar verður leikinn og sunginn bróðurparturinn af nýju plötunni í bland við eldri lög. „Stemming og stuð samkvæmt hálfvitskum Evrópustöðlum og engin þörf á að taka góða skapið með, það verður mætt á undan ykkur,“ segja þeir félagar. Tónleikarnir hefjast kl. 20:30.