20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Líf og fjör á Degi sjúkrahússins
Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) ásamt starfsfólki sjúkrahússins stóðu fyrir Degi sjúkrahússins á Glerártorgi sl. laugardag milli kl. 14:00 og 16:00. Stjórnarmenn í Hollvinasamtökum SAk gengu um og söfnuðu nýjum félagsmönnum og margir nýttu sér boð um að láta starfsfólk SAk mæla hjá sér blóðþrýsting, súrefnismettun og púls. Síðast en ekki síst komu fjölmörg börn með uppáhaldsleikfangið sitt í læknisskoðun og ýmsar aðgerðir.
Hollvinir SAk eru vel á þriðja þúsund talsins og fjölgaði um nokkra tugi um helgina. „Við viljum fjölga þeim enn frekar á næstu mánuðum, því 6.000 króna árgjald félagsmanna er sá grunnur sem Hollvinir SAk byggja starfsemi sína á,“ segir Jóhannes G. Bjarnason, formaður stjórnar Hollvinasamtakanna.
Á Bangsaspítalanum var mikið um að vera á laugardaginn og fjölmargir mjúkir gripir fengu kærkomna skoðun og gengust jafnvel undir minni háttar aðgerð á staðnum, eigendunum til mikillar ánægju og gleði.
Er þrýstingurinn í lagi? Hvað með súrefnismettunina? Sumir létu kanna það en aðrir áttu brýnt erindi á Bangsaspítalann.