Leikhúsið hefur sína forskrift og óskráðu reglur

Sýningin Byrja, (bíb) búið verður sýnd í Menningarhúsinu Hofi föstudagskvöldið 28. apríl kl. 20. 

Hvað gerist ef þú gengur afturábak í gegnum matvöruverslun? Ef þú fylgir ekki leikreglum rýmisins?

Dansleikhúsið Byrja, (bíb) búið. fjallar um kóreógrafíu hversdagsleikans og spyr, hver má hreyfa sig, hvernig, hvar og hvenær? Hvert rými sem við stígum inn í gefur okkur merki sem segja til um hvernig skal hreyfa sig innan þess. Án þessara forskrifta missum við áttaskyn.

Hvað gerist ef þú ferð gegn kóreógrafíunni, hinum óskrifuðu reglum rýmisins? Og hvað þarf mikið til, til þess að það sé frávik? Ef við þá nokkurn tímann leyfum okkur slíkt.

Sýningin var unnin í samsköpun innan hópsins. Aðferðin var rannsókn á regluverkum ólíkra rýma og efnið skapað með tilraunum innan hina ýmsu almenningsrýma, með aðferðum Site-specific leikhússins. Að lokum var rannsókninni fundin staður í rými leikhússins og reglur þess um hreyfingu skoðaðar. Því leikhúsið hefur sína forskrift og óskráðu reglur eins og öll önnur almenningsrými.

Leikstjóri og höfundur er Anna Róshildur, flytjendur og meðhöfundar eru Bjartey Elín Hauksdóttir, Inga María Olsen, Sóley Ólafsdóttir og um tónlist og hljóðhönnun sáu Elías Geir Óskarsson og Anna Róshildur.

Verkið var upphaflega sýnt sem útskriftarverk af Sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands, apríl 2022.

Viðburðurinn er styrktur af VERÐANDI liststjóði sem er samstarfverkefni Akureyrarbæjar, Menningarhússins Hofs og Menningarfélags Akureyrar.

Nýjast