Leikfélag Akureyrar æfir Kvenfólk

Þeir Hjörleifur Hjartarsson og Eiríkur Stephensen skipa dúettin Hund í óskilum.
Þeir Hjörleifur Hjartarsson og Eiríkur Stephensen skipa dúettin Hund í óskilum.

Leikfélag Akureyrar æfir nú í Samkomuhúsinu sýninguna Kvenfólk eftir Hund í óskilum. Í sýningunni fara þeir félagar Hjörleifur Hjartarsson og Eiríkur Stephensen á hundavaði yfir kvennasöguna undir leikstjórn Ágústu Skúladóttur. Sýningin verður frumsýnd þann 29. september og sýnd í október og nóvember í Samkomuhúsinu.

Hundur í óskilum er margrómaður og verðlaunaður dúett sem er leikhúsgestum að góðu kunnur fyrir leiksýningar sínar Sögu þjóðar sem hlaut Grímuverðlaunin árið 2012 og Öldina okkar sem gekk fyrir fullu húsi í Samkomuhúsinu og svo í Borgarleikhúsinu í kjölfarið, en Öldina okkar unnu þeir ennig með Ágústu Skúladóttur. Um sýninguna Kvenfólk segir í tilkynningu:

„Kvennasagan á hundavaði er drepfyndin sagnfræði með söngvum. Hundur í óskilum heldur hér áfram að varpa óvæntu ljósi á Íslandssöguna með húmorinn að vopni. Nú er komið að sögu kvenna og kvennabaráttu. Frá því að konan kom til landsins í lok nítjándu aldar hafa íslenskir karlmenn gert sitt besta til að laga sig að breyttum aðstæðum. En hefur okkur tekist sem skyldi? Sagan greinir frá örfáum konum - raunar svo fáum að það er búið að skíra rakettur í höfuðið á þeim öllum. Hundur í óskilum veltir við hverjum steini og grefur upp ýmislegt óvænt og skemmtilegt í sögu jafnréttisbaráttunnar,“ segir um sýninguna. 

Kvenfólk er 323 sviðsetning Leikfélags Akureyrar og er ein af þremur leiksýningum sem LA setur upp leikárið 2017-2018.

 

Nýjast