Legudeild geðdeildar SAk enn í sama bráðabirgðahúsnæðinu og fyrir 38 árum

Valborg Lúðvíksdóttir aðstoðardeildarstjóri og Bernard Gerritsma deildarstjóri á geðdeild SAk segja …
Valborg Lúðvíksdóttir aðstoðardeildarstjóri og Bernard Gerritsma deildarstjóri á geðdeild SAk segja stærð deildarinnar hafa reynst krefjandi og ekki verið rými til að anna að fullu þeirri eftirspurn sem er eftir bráðaþjónustu Myndir sak

Legudeild geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri, SAk, er enn staðsett í sama bráðabirgðahúsnæði og starfsemin hófst í fyrir um 38 árum síðan. Samkvæmt úttekt landslæknisembættisins stenst húsnæðið ekki kröfur sem gerðar eru vegna starfseminnar og segir að það sé barn síns tíma. Það fullnægi ekki þeim kröfum sem til starfseminnar og umfangs hennar eru gerðar. Ýmsum ábendingum var beint til heilbrigðisráðaherra í kjölfar úttektarinnar, m.a. um öryggistengd atriði, skort á heimsóknarrýmum og útisvæði fyrir sjúklinga.

Geðdeild SAk er eina starfandi geðdeildin utan höfuðborgarsvæðisins og sinnir öllu Norður- og Austurlandi. Hún skiptist upp í legudeild, dag/göngudeild fullorðinna ásamt barna- og unglingageðteymi, BUG teymi. Mikið álag hefur verið á deildinni undanfarin ár sem náði hámarki á nýliðnu ári þegar rúmanýting var tæplega 85% samanborið við um 75% árið þar á undan.

Bernard Gerritsma deildarstjóri og Valborg Lúðvíksdóttir aðstoðardeildarstjóri á geðdeild SAk segja að stærð deildarinnar hafi frá upphafi, árið 1986 haldist óbreytt. „Á þeim tíma átti húsnæðið að vera til bráðabirgða en hefur verið óbreytt í nær fjóra áratugi,“ segir Bernard Legudeildin er með 10 rúm ásamt tveimur plássum í dagmeðferð sem nýtt er í stutta eftirfylgd sjúklinga í framhaldi af innlög ef þörf er á.

Geðdeild SAk var opnuð í mars árið 1986 og þá í húsnæði sem vera átti til bráðabirgða. Hér sést inn eftir gangi á deildinni. 

Úttektir sýna að núverandi húsnæði er óviðunandi

„Stærð deildarinnar hefur reynst krefjandi og ekki hefur verið rými til að anna að fullu þeirri eftirspurn sem er eftir bráðaþjónustu. Einnig hafa úttektir eftirlitsaðila sýnt fram á að núverandi húsnæði legudeildar sé óviðunandi. Hluti af daglegu meðferðarstarfi deildarinnar fer fram í húsnæði göngudeildar, sem staðsett er í tengibyggingu við SAk en sú fjarlægð er óhentug þegar við erum með ákveðin hóp einstaklinga sem þarf meira eftirlit“ segir Valborg. 

Gert er ráð fyrir að geðdeildin flytji yfir í nýja legudeildarálmu sem stefnt er á að rísi við sjúkrahúsið á næstu árum. Þau segja það vissulega til mikilla bóta til framtíðar litið.

Á þessari stundu sé hins vegar ekki hægt að segja fyrir um hvaða breytingar það hafi í för með sér fyrir deildina, þar sem undirbúningsvinna sé enn í fullum gangi. Meðferðarrými í nýbyggingunni  muni þó  taka mið af núverandi stöðu og framtíðarsýn í geðheilbrigðisþjónustu.

Flestar innlagnir á legudeild geðdeildar koma í gegnum bráðamóttöku SAk. Innlagnir í bráðameðferð taka mið af sjúkdómsástandi einstaklings og heildrænu mati á því hvort þörf sé á þjónustu í innlögn eða í annars konar eftirfylgd.   Á deildinni er unnið á þrískiptum vöktum hjúkrunar ásamt almennu meðferðarstarfi sem er sinnt af þverfaglegu teymi. Þá er sérfræðingur í geðlækningum á vakt allan sólarhringinn.

Álag aukist undanfarin ár

Álag í bráðaþjónustu geðdeildar hefur aukist síðastliðin árár en að sögn Bernards og Valborgar er ekki bein skýring á þeirri aukningu. Þau nefna að í tölfræði megi sjá 10% aukningu frá árinu 2017 í innlögnum einstaklinga með geðraskanir af völdum vímuefna. Þá hafi verið áberandi aukning í hópi yngra fólks eftir geðþjónustu bæði vegna geðraskanna í tengslum við vímuefnavanda sem og annars konar geðraskanna. Ástæðu þessa geti verið af ýmsum toga en þau segja að svo virðist sem umræður um kröfur samfélagsins hafi ákveðinn þátt á geðheilsu yngra fólks.

Samvinna er, að þeirra sögn til staðar við önnur meðferðarúrræði eftir þörfum en ljóst er að álag er líka á geðþjónustu LSH sem og heilsugæslu. Þá sé deildin einnig í samvinnu við SÁÁ séu einstaklingar metnir svo að þeir geti nýtt sér þjónustu þar, en biðlistar eru þó inn í meðferðarúrræði SÁÁ.

Umfangsmikið verkefni í þróun geðþjónustu

„Með auknu álagi í geðheilbrigðisþjónustu er mikilvægt að rýna í þjónustuferla og starfsumhverfi. Nú hefur verið lagt af stað með umfangsmikið verkefni í þróun geðþjónustu á SAk þar sem haft er að leiðarljósi að huga að umbótum til að auka skilvirkni og gæði þjónustunnar sem við veitum. Til þessa verkefnis hefur geðdeildin (legudeild, dag- og göngudeild og BUG teymi) góðan stuðning framkvæmdastjórnar sem og nýtur stuðnings og vinnu utanaðkomandi ráðgjafa í breytingarstjórnun. Þetta verkefni fer vel af stað og verður spennandi að fylgjast með þeirri umbótavinnu,“ segja þau Bernard og Valborg.

 

 

 

 

----

Nýjast