Krabbameinsfélagið fagnaði nýju og stærra húsnæði

Flutningum KAON var fagnað á Bleika deginum. Á myndinni eru starfsmenn Krabbameinsfélagins. Frá vins…
Flutningum KAON var fagnað á Bleika deginum. Á myndinni eru starfsmenn Krabbameinsfélagins. Frá vinstri; Halldóra Björg Sævarsdóttir framkvæmdarstjóri, Eva Björg Óskarsdóttir, sem sér um markaðsmál og aðstoðar framkvæmdarstjóra, Regína Ólafsdóttir sálfræðingur og Katrín Ösp Jónsdóttir verkefnastjóri og hjúkrunarfræðingur.

Krabbameinsfélag Akureyrar og ná­grennis (KAON) flutti í nýtt og stærra húsnæði nýverið og var því fagnað á Bleika deginum. Starfsemi Krabbameinsfélagsins er nú í Glerárgötu 34, 2. hæð. Á föstudaginn var mættu á annað hundrað manns til þess að fagna tímamótunum með félaginu.

Margt er að gerast hjá Krabbameinsfélaginu þessi misserin en Katrín Ösp Jónsdóttir, verkefnastjóri KAON, segir að það hafi orðið mikil vitundarvakning hjá heilbrigðisstarfsfólki og almenningi um að endurhæfing fyrir fólk sem greinst hefur með krabbamein sé mikilvæg.

„Líklega er það ein af ástæðum þess hversu mikil aukning hefur orðið á starfsemi KAON. Fyrir tveimur árum þá voru tveir starfsmenn hjá félaginu, hvor í 50 % stöðu. En nú eru starfsmennirnir orðnir fjórir í tæplega fjórum stöðugildum auk þess sem sjálfboðaliðar og stjórn KAON leggja sitt af mörkum. Þannig að starfsemin hefur aukist og eflst gríðarlega á skömmum tíma. Með flutning í nýtt og stærra húsnæði munum við geta veitt ennþá betri þjónustu,“ segir Katrín Ösp sem vill að endingu koma á framfæri þökkum fyrir hlýhug frá samfélaginu.

Hægt er að nálgast allar upplýsingar um félagið og þá aðstoð sem KAON veitir á heimasíðu félagsins, www.kaon.is. 

Nýjast