Kann vel við sig í sveitinni þó svo að skuldbindingin sé mikil

Stefán Sævarsson í sannkölluðu vetrarríki í sveitinni.
Stefán Sævarsson í sannkölluðu vetrarríki í sveitinni.

Stefán Sævarsson hefur verið í kringum búskap nær alla ævi. Hann er bóndi á Syðri-Grund í Grýtubakka, þar sem hann býr ásamt eiginkonu sinni, Steinunni Hörpu Jónsdóttur. Undirritaður ræddi við Stefán um lífið í sveitinni, bæði í hversdagsleikanum og á jólunum sem senn ganga í garð.

„Alla mína ævi, nema tvö eða þrjú ár. Ég fór tvítugur til Akureyrar, annars er ég alla tíð búinn að vera í þessu,“ sagði Stefán er hann var spurður út í það hversu lengi hann hefur starfað við búskap. Hann verður 59 ára gamall skömmu fyrir jól.

Sem bóndi er Stefán sinn eigin yfirmaður og það kann hann að meta. „Maður ræður því sjálfur, ákveður hvenær þú vilt fara að vinna.“ Það var ófátt sem hann gat nefnt er hann var spurður út í það hvað væri það besta við hans starf. Hann hefur til að mynda gaman að öllum árstíðunum. Þá hefur Stefán mikinn áhuga á skepnunum. Hann er með um 50 kýr á Syðri-Grund. ,,Að vera í kringum þær og sjá þær dafna. Maður sér árangur þess sem maður brasar í,“ sagði Stefán.

„Þú ert negldur í báða skó í þessu“

Syðri Grund

Skuldbindingin er mikil í starfi Stefáns og þarf sjálfsaginn að vera í lagi svo að hlutirnir gangi smurt fyrir sig. „Þú þarft alltaf að vera klár. Maður fer ekkert í helgarfrí eða neitt. Það er ekkert hægt að fá mann fyrir sig, maður fer ekkert í burtu. Þú ert ekki bara bundinn í báða skó, þú ert negldur niður í báða skó í þessu.“ Skuldbindingunni og aganum fylgir það að vakna snemma. „Ég er nú vanur að vakna klukkan sex. Svo geturðu líka bara breytt þessu.“

En er mikilvægt að kýrnar séu einnig í rútínu? ,,Þær rúlla sér nú sjálfar. Jú, það þarf að vera rútína á því að gefa kúnum heyið og þetta. Maður fer þrisvar, fjórum sinnum á dag, yfirleitt á svipuðum tímum. Það er auðvitað mjög gott að hafa rútínu á hlutunum,“ svaraði Stefán.

Sem fyrr segir þekkir Stefán lítið annað en að starfa við búskap. Hefur annar starfsvettvangur aldrei heillað hann? „Ég sá nú í hillingum þegar ég var ungur að vinna á þungavinnuvélum, jarðýtum og þess háttar. Ég sat bara heilu dagana og var að horfa þegar þeir voru að vinna hérna. En ég hef svo sem aldrei hugsað út í að gera eitthvað annað. Manni líður það vel í þessu.“

„Maður verður latari“

Nú líður senn að jólum og var Stefán spurður út í jólin í sveitinni. „Maður skreytir fjósið að utan, set jólaseríu á það. Ég gef kúnum gott hey, besta heyið sem maður á,“ sagði Stefán. Hann hélt áfram og grínaðist aðeins í undirrituðum; „Svo syngur maður auðvitað jólabænina fyrir þær,“ sagði hann léttur.

Í starfi Stefáns er það eins með jólin og hversdagsleikann, það er ekki í boði að taka sér frí. Hann viðurkennir þó að bregða út af vananum að einhverju leyti. „Maður verður latari, fer seinna út. Það er kannski alvöru jólaandi.“

„Það verður að hafa einhverja spennu í þessu“

En eru einhverjar sérstakar hefðir sem Stefán og Steinunn halda við í sveitinni? ,,Maður borðar þennan mat, hangikjöt, á jóladag. Svo reynum við að fara í kirkjugarðinn eins og maður er vanur að gera. Svo er það auðvitað jólagrauturinn. Hann er í hádeginu oft.“ Eins og gengur og gerist á mörgum heimilum þá er mandla í grautnum hjá honum og hans fólki. „Það verður að hafa einhverja spennu í þessu,“ sagði Stefán.

Á aðfangadagskvöldið sjálft er svo ekki verið að flækja hlutina mikið er kemur að matseld. Það verður hamborgarhryggur á boðstólum.

HFS

Nýjast