Jólin eru yndislegur tími

Jónína Gísladóttir.
Jónína Gísladóttir.

Jónína Gísladóttir er þrátíu og sex ára Akureyringur sem starfar við kynningar á snyrtivörum. Hún er fædd á Akureyri en flutti fimm ára gömul í Eyjafjarðarsveit á bæinn Brúnalaug þar sem foreldrar hennar voru garðyrkjubændur. Hún flutti svo aftur til Akureyrar og hefur búið þar lengst af. Jónína var í viðtali í Jólablaði Vikudags sem var unnið af nemum í fjölmiðlafræði við HA.

„Ég er mikið jólabarn og elska allt við jólin, sérstaklega jólaljósin þar sem þau færa mér svo mikla hlýju og gleði enda er ég yfirleitt búin að setja jólaljósin snemma upp.“ Það besta við jólin finnst henni að bardúsa í eldhúsinu með jólatónlist í gangi og að baka, sérstaklega að baka sörur en þær eru hennar uppáhald. „Eftir því sem ég eldist finnst mér jólaandinn breytast hjá mér en eftir að ég varð móðir finnst mér ég fyllast þakklæti fyrir það sem ég hef.“ Súrkálið sent frá Noregi Jólin eru mjög mismunandi á milli ára en það fer alfarið eftir því hverjir eru hjá Jónínu hverju sinni. Börnin eru annað hvort hjá henni eða föður sínum svo það eru mikil viðbrigði fyrir hana þegar þau eru fjarri. „Jólamatinn hefur ég eldað sjálf síð­ an ég var tíu ára gömul þar sem mamma mín vann á fæðingadeildinni og pabbi var vanur því að konan hans sæi um matinn. Hann var því lítið að spá í matnum svo litla jólastelpan ég tók málin í sínar hendur og allir fengu dýrindis jólamat sem heppnaðist mjög vel.“

Á Þorláksmessu er hefðbundin Þorláksmessuskata hjá mömmu hennar. Skatan hefur verið í boði á hverju einasta ári og hefur ekki klikkað. „En þar er matur á boðstólum fyrir alla, ekki bara blessuð skatan. Svo eru alltaf þessi hefðbundnu jólaboð en þau eru mismunandi eftir árum.“ Jónína segist vera mjög vanaföst og „ ég verð að fá minn hamborgarhrygg ásamt öllu meðlætinu og þá sérstaklega súrkálið sem ég fæ sérstaklega sent frá Noregi þar sem ég á ættingja. Afi minn var norskur og ég vil halda í hefðirnar hans enda þykir mér óendanlega vænt um þessa hefð.“ Þegar Jónína fór fyrst að búa vildi hún búa til sína eigin hefð. Hún tók til sinna ráða og útbjó dýrindis humarsúpu á Þorláksmessu sem hún lætur malla allan daginn og nóttina og svo er hún borin fram klukkan þrjú á aðfangadag ásamt grilluðu hvítlauksbrauði. „Þessi hefð er orðin heilög, enda elska allir súpuna.“ Möndlugrautinn sjá foreldrar hennar um. „Þegar ég var yngri var alltaf ekta jólatré sem pabbi minn sá um ásamt systkinum mínum en í seinni tíð hefur sonur minn fengið að hjálpa afa sínum að velja jólatréð en sjálf er ég með hvít gervijólatré heima hjá mér.“

Helgukökur og Daim-kaka

„Það er ekki mikið bakað á mínu heimili fyrir jólin annað en sörur og krúttlegar ritzkex-samlokur með hnetusmjöri og súkkulaði eða Helgukökur eins og ég kallar þær en mamma vinkonu minnar, hún Helga Ágústa, kenndi mér að búa þetta til þegar ég var tólf ára gömul og ég geri þær enn þann dag í dag.“ Svo gerir Jónína alltaf Daim-köku sem hún hefur í eftirrétt á aðfangadagskvöld. Gleði barnanna „Það besta við jólin finnst mér vera matargerðin og gleðin hjá börnunum. Jólaljósin og jólatónlistin kemur mér alltaf strax í jólaskapið svo gerir hvíti snjórinn auðvitað voðalega mikið, enda ómissandi í desembermánuði.“

Uppáhaldsjólalagið hennar er „Ef ég nenni“ með Helga Björns. „Það er bara svo yndislegt lag sem kemur öllum í jólaskapið.“ Svo eru það gömlu, rólegu jólalögin sem hún heldur mikið upp á. „Besta jólagjöfin sem ég hef fengið eru gjafirnar sem börnin mín gáfu mér þegar þau voru í leikskóla, það er ekkert sem toppar þær gjafir.“ Efst á óskalistanum þetta árið er lítill hátalari sem hún getur haft í eldhúsinu á meðan hún eldar eða bakar sem hún gerir ansi mikið af. „Fyrsta minningin af jólunum er þegar ég vaknaði og jólasveinninn hafði komið og gefið mér í skóinn. Ég var svo hissa á því hvernig í ósköpunum jólasveinninn hafði komist í gegnum gluggann! Þessu gleymi ég aldrei. Ég spáði í þessu á hverju ári í mörg ár og geri ráð fyrir að hafa gert foreldra mína kolvitlausa með endalausum pælingum mínum!“ Uppáhaldsjólasveinninn er Hurðaskellir, þar sem mamma hennar hefur einstakt lag á að semja við hann að kíkja á fjölskylduna á aðfangadag, sem fer misvel í fjölskyldumeðlimi. Jólin eru ekki heilög í augum Jónínu og hún getur vel séð fyrir sér að skella sér til útlanda yfir jólin. „Það mun gerast eitthvert árið því það er fínt að breyta til öðru hverju.“ Hún segist í lokin vilja óska öllum gleðilegra jóla. „Munum að missa okkur ekki í jólastressinu. Jólin eru yndislegur tími og tími barnanna. Verum kurteis og sýnum náunganum virðingu. Þá gengur allt miklu betur.“

Daim-kakan

4 eggjahvítur 200 g sykur Þeytt saman þangað til þetta verður stíft. Ég tek tvær arkir af bökunarpappír og teikna eftir disk og set blönduna til helminga og dreifi jafnt úr. Set inn í ofn á blástur, 100 gráðu hita og hef í klukkustund. Tek út og kæli meðan ég geri kremið. 4 eggjarauður þeyttar saman við 200 g af sykri á meðan ég saxa 2-3 stór Daim-stykki og blanda þessu saman við eggjablönduna. Tek þetta frá og þeyti 750 ml af rjóma og blanda eggjablöndunni saman við þeyttan rjómann, bara með sleif en varlega. Kæli þetta í svona hálftíma og set svo á botnana. Annað hvort hef ég einn botn og kremið eða set botn, krem, botn og krem. Þetta er bara smekksatriði. Stundum set ég Rice crispies í botninn en stundum ekki.

Helgukökur

Ritzkex, hnetusmjör, súkkulaði Ég smyr hnetusmjöri á ritzkex og set annað ofan á svo úr verði samloka og kæli smá meðan ég bræði súkkulaði yfir vatnsbaði og set svo kökuna ofan í súkkulaðið og tek upp með gaffli. Skreyti svo með kökuskrauti og geymi í kökuboxi; set smjörpappír á milli laga. Þetta er rosalega gott með kaffinu fyrir kaffiunnendur. Svo er eitt gott ráð í lokin: Alltaf að nota stóra plastkassa með loki og geymi sörurnar og Helgukökurnar úti í kuldanum í staðinn fyrir að fylla ísskápinn og frystinn.

-RRG

Nýjast