Jólaprjónið í ár -Rætt við Kolbrúnu Jónsdóttur um prjónaskap

Kolbrún Jónsdóttir, tónlistarkennari og prjónakona.
Kolbrún Jónsdóttir, tónlistarkennari og prjónakona.

Nú þegar veturinn leggst yfir landið og vetrarkuldinn tekur yfir eru margir landsmenn sem grafa í skúffum og skápum eftir lopapeysum, ullarsokkum og ullarskóm. Íslenska lopapeysan er ekki bara mikilvægur hlutur af menningu okkar heldur er þessi fatnaður bæði einstaklega hlýr á veturna og þegar vel tekst til virkilega flottar flíkur.

Kolbrún Jónsdóttir er tónlistarkennari en hún hefur stundað þetta áhugamál í áratugi. Það eru margir sem halda uppi prjónasíðum á samfélagsmiðlum og selja flíkurnar sínar áfram en Kolbrún er einmitt ein af þeim og þar af leiðandi fær hún smá aukapening af áhugamálinu sínu. „Það sem mér finnst skemmtilegast er að búa til eitthvað, skapa flík sem nýtist og er falleg. Svo er prjónaskapur mjög róandi athöfn,“ segir Kolbrún.

Meira prjónað á haustin en á öðrum tímum

Það segir sig mögulega sjálft að með kólnandi veðurfari sé meiri eftirspurn eftir lopavörum, en það eru alltaf sveiflur í prjónatíðninni.

„Ég prjóna langmest á haustin því ég hef tekið þátt í jólamörkuðum í fjöldamörg ár. Ég byrjaði á því þegar ég bjó fyrir norðan og þá fyrst á jólamarkaði sem var á Skeiði í Svarfaðardal. Síðastliðin ár hef ég tekið þátt á jólamarkaðnum í Heiðmörk þar sem ég verð einnig í ár, og líkar það vel,“ segir Kolbrún. Hún bætir við að það sé alltaf eitthvað að prjóna allt árið en það fari yfirleitt eftir pöntunum hjá henni.

Prjónavörur sem jólagjöf

Það muna flestir eftir því sem barn að hafa þreifað á jólapökkunum og tekið eftir mjúka pakkanum og orðið svakalega vonsvikin.

 Kolbrún segir að hún hefur gefið sínar vörur í jólagjöf margoft og kannast ekki við annað en að því hafi verið vel tekið. Hún bætir þó við að bestu móttökurnar hafi yfirleitt verið hjá fullorðnu fólki frekar en hjá börnunum sem voru að búast við leikföngum.

Uppskrift að barnahúfu

„Ég prjóna mjög mikið og mest eitthvað sem ég hanna sjálf. Ég skrifa uppskriftirnar mjög knappt, nota einfaldar tölur eins og fyrir uppfit, útaukningu og cm en það skilur enginn þessar uppskriftir nema ég,“ segir Kolbrún Jónsdóttir.

Hér kemur einföld uppskrift af húfu sem er mjög teygjanleg og passar fyrir krakka á ýmsum aldri.„Ég nota Spuna og prjón nr 5. Fitjið upp 80 lykkjur og prjónið í hring, 2 sléttar og 2 snúnar til skiptis. Prjónið þar til hólkurinn mælist ca 30 cm. Takið þá úr í hverri umferð; fyrst 10. hverja lykkju, svo 9. hverja o.s.frv. Dragið bandið í gegnum síðustu lykkjurnar, ég geri það oftast þegar 8 eru eftir.

Prjónaðar barnahúfur eftir meðfylgjandi uppskrift

Gangið frá endandum á röngunni. Passið að ganga frá endanum sem þið byrjuðuð á þannig að sjáist sem minnst þar sem þið brjótið upp á húfuna. Ég þvæ spuna alltaf á 30° á ullarprógrammi í þvottavél, 800 snúninga vindu og legg svo stykkið til á handklæði. Notið ullarsápu og alls ekki mýkingarefni.“

Ullarvettlingar prjónaðir af Kolbrúnu

 

Samfestingar prjónaðir af Kolbrúnu

 

Barnapeysa og húfa prjónað af Kolbrúnu

Nýjast