„Jólaljósin koma mér í jólaskap“

Kristján Eldjárn og eiginmaður hans, Leifur Guðni á jólahlaðborði
Kristján Eldjárn og eiginmaður hans, Leifur Guðni á jólahlaðborði
Höfundur greinarinnar er Vera Elísabet Thorsteinsson (VET). Hún er fjölmiðlafræðinemi á 2. ári í Háskólanum á Akureyri. Hluti af lokaverkefni nemenda í áfanganumVera Prentmiðlun var að skrifa efni fyrir Vikublaðið. Stærstur hluti efnisins birtist í Jólablaði Vikublaðsins en stakar greinar, eins og þessi, í öðrum tölublöðum og á vefnum.

 

Kristján Eldjárn Sveinsson, flugþjónn hjá PLAY Air, er mikill fagurkeri og Dalvíkingur í húð og hár. Hann er þekktur fyrir að vera nautnaseggur og hann er duglegur að sýna frá ævintýrum sínum á Instagram þar sem hann ferðast mikið og heimsækir eftirsótta veitingastaði. Ásamt því er hann gífurlega mikið jólabarn og því forvitnilegt að vita hvernig hann heldur upp á jólin og fræðast um jólasiði hans.

Hvað kemur þér í jólaskap?

„Það sem kemur mér í jólaskap er þegar ég byrja sjá jólaljósin hjá öðrum og þegar ég og maðurinn minn, Leifur, byrjum að skreyta sem er yfirleitt í kringum miðjan nóvember. Það er svo gaman að sjá og fylgjast með hvernig aðrir skreyta. Einnig eru það jólalögin, en ég byrja alltaf að hlusta á þau skipulega 1. nóvember.“

Allar samverustundirnar bestar

Hvað finnst þér best við jólin?

„Allar samverustundirnar með fjölskyldunni, jólaboðin, maturinn og kósýkvöldin þar sem við horfum á jólamyndir og borðum smákökur. Svo þykir mér virkilega gaman að fara í jólagjafaleiðangra og kaupa gjafir fyrir vini og fjölskyldu.“

Hvað borðar þú á jólunum?

„Það er svolítið misjafnt  og það fer eftir því hvort ég er hjá tengdó eða foreldrum mínum. Ég er alinn upp við að fá rjúpu eða önd á aðfangadagskvöld og yfirleitt humarsúpu í forrétt en núna í ár erum við hjá tengdó. Þá verða líklegast hvítlauksristaðir humarhalar í aðalrétt og mér finnst það sko ekkert verra.“

Nýir, skemmtilegir hlutir á jólatréð

Hver er uppáhalds jólahefðin þín?

„Ég held ég verði að segja að uppáhalds jólahefðin mín sé sú að við maðurinn minn kaupum alltaf nýja, skemmtilega hluti á jólatréð á hverju ári og það er alltaf svo gaman þegar við skreytum það. Í fyrra vorum við með tré sem var 250 cm og skrautið okkar dugði á það, svo það mætti segja að við séum komnir með ágætt safn. Einnig er alltaf yndislegt að gera laufabrauð með fjölskyldunni en við gerum það á hverju ári.“

Er eitthvað sem þú hefur ekki ennþá gert um jólin sem þig langar að gera?

„Já, ég væri til í að fara halda stórt jólaboð heima hjá okkur. Við höfum yfirleitt  farið til foreldra okkar eða fjölskyldu yfir hátíðirnar en það væri gaman að bjóða heim til okkar þar sem við höfum nýlega flutt í stærra húsnæði.“

VET

 

Nýjast