Iceland Winter Games haldið í Hlíðarfjalli í lok mars
Iceland Winter Games (IWG) hátíðin verður haldin í Hlíðarfjalli á Akureyri dagana 23.-25. mars nk. Um alþjóðlega vetrarhátíð er að ræða en hátíðin var fyrst haldin árið 2014 en snýr nú aftur eftir tveggja ára hlé. Í ár er von á keppendum víðs vegar að úr heiminum, m.a. frá Bandaríkjunum, Kanada, Austurríki og fleiri Evrópulöndum.
Markaðssvæði Iceland Winter Games hefur stækkað mikið sem og áhugi íþrótta-og fjölmiðlafólks um allan heim. Sem dæmi valdi sjónvarpsþáttaröðin World of Adventures IWG sem fimmta áhugaverðasta og mest spennandi jaðaríþrótta viðburð í heimi. Aðalviðburður á leikunum í ár verður keppni á Snjóskautum eða Sled Dogs Snowskates og nefnist Bonefight. Einnig verður fjallahjólabrun í bröttustu brekku skíðasvæðisins, vélsleðaspyrnu og snjócross á vélsleðum, snjóblakmót sem verður haldið í Hlíðarfjalli og verður jafnframt Íslandsmeistaramót, en þetta er í fyrsta skipti sem slíkt mót er haldið á Íslandi. Þá má nefna Freeride skíða/bretta keppni þar sem keppt er utan troðinna skíðaleiða.
Mikill áhugi erlendis frá
„Við eigum von á 50-70 manns erlendis frá og það eru keppendur, mótshaldarar, fjölmiðlafólk og einnig er þónokkuð af fólki sem er að koma til Íslands gagngert til að fylgjast með IWG,“ segir Axel Ernir Viðarsson framkvæmdastjóri hátíðarinnar og segir áhugann gífurlegan. „Við byrjuðum að fá tölvupósta strax í október frá fólki úr hinum ýmsu löndum sem var að spyrja hvaða dagsetning yrði á leikunum í ár því þau væru að skipuleggja frí fyrir fjölskylduna og langaði að vera á Íslandi þegar IWG yrði haldið, sem er frábært. Við eigum einnig von á miklum fjölda Íslendinga norður því þeir eru einnig mjög áhugasamir um leikana. Bæði sem keppendur og áhorfendur.“ Axel segir risanöfn á leið til landsins á leikana en t.a.m. bræðurnir Marco og Luca Dallago eru í efstu sætum heimslistans í Crashed Ice sportinu og var Marco Dallago var heimsmeistari 2014.
Akureyringur heimsmeistari í Snowskates
Þeir sem standa að Iceland Winter Games eru Akureyrarbær, Markaðsstofa Norðurlands, Akureyrarstofa, Íslandsstofa og Viðburðastofa Norðurlands. „Þetta er unnið í miklu og góðu samstarfi við Hlíðarfjall og þá frábæru aðila sem halda hina ýmsu viðburði en það eru Hjólreiðafélag Akureyrar (HFA), Ey-Lív (félag vélsleðamanna í Eyjafirði), Team 23 félagarnir sem halda snjócrossið, Blakdeild KA og auðvitað Sled Dogs Snowskates,“ segir Axel og bætir við að Íslendingar eigi einmitt heimsmeistarann í Snowskates íþróttinni.
„Það er Akureyringurinn Ingi Freyr Sveinbjörnsson sem byrjaði sinn feril á skautunum hér í Hlíðarfjalli. Margir af þeim keppendum sem eru að koma á IWG vegna Sled Dogs eru gríðarlega stór nöfn í skautaheiminum og þá sérstaklega úr hokkíinu,“ segir Axel Ernir og hvetur fólk til að hafa samband ef það er með viðburði eða afþreyingu á þeim tíma sem hátíðin fer fram.
„Okkar markmið er að auglýsa og koma Akureyri og Norðurlandi öllu á framfæri sem spennandi áfangastað fyrir erlenda sem og innlenda ferðamenn og því viljum við endilega fá að vita frá fólki hvað er í boði þessa daga sem hátíðin stendur yfir.“
Hægt er að senda upplýsingar og fyrirspurnir á netfangið axel@icelandwintergames.com. Einnig eru allar helstu upplýsingar að finna á www.icelandwintergames.com og á Facebook síðu leikana.