Dagskráin 18.desember - 8.janúar 2025
ÍBA fagnar 80 ára afmæli með íþróttahátíð í Boganum
Íþróttabandalag Akureyrar, ÍBA, fagnar 80 ára afmæli sínu með sannkallaðri íþróttahátíð í Boganum næstkomandi laugardag, 7. desember frá kl. 13 til 17. ÍBA var stofnað 20. desember árið 1944. Innan vébanda ÍBA eru tuttugu íþróttafélög og munu flest þeirra vera á staðnum og kynna starfsemi sína og leyfa gestum og gangandi að prufa hinar ýmsu íþróttagreinar en innan aðildarfélaga ÍBA eru stundaðar hátt í 50 íþróttagreinar. Góðir gestir líta við og í boði verða léttar veitingar. Svo skemmtilega vill til að á laugardag fagnar eitt aðildarfélaganna, Íþróttafélagið Akur, 50 ára afmæli sínu og verður því fagnað sérstaklega á hátíðinni.
Jóna Jónsdóttir formaður ÍBA segir það að tryggja fagmennsku í framkvæmd á íþróttastarfi á Akureyri vera eitt mikilvægasta hlutverk bandalagsins „Við hvetjum aðildarfélögin til að gerast fyrirmyndarfélög ÍSÍ því það felur í sér að vel er haldið utan um fjármál félaganna og að allt starf þeirra sé í samræmi við lög og reglur, þar með talið siðareglur. Það eru allir sammála um að öflugt íþróttastarf er liður í forvörnum og bættri lýðheilsu. Við viljum öll fara eða senda börnin okkar á æfingar í þeirri góðu trú að þar sé aðhald, umhyggja og öruggt umhverfi,“ segir Jóna.
Er og verður áskorun
ÍBA gætir hagsmuna íþróttahreyfingarinnar á Akureyri gagnvart opinberum aðilum og vinnur að því að styrkja og byggja upp íþróttastarfsemi í héraðinu. Bandalagið fær styrki frá Akureyrarbæ og styður starfsemi aðildarfélaganna með þeim, m.a. til að greiða fyrir aðstöðu til æfinga og keppni sem og styrki til afreksstarfs. Þá fær bandalagið einnig styrki frá ÍSÍ og UMFÍ.
Helga Björg Ingvadóttir framkvæmdastjóri ÍBA segir að eitt af viðameiri verkefnum bandalagsins sé þátttaka í tímaúthlutun í íþróttamannvirkjum bæjarins. „Við erum í þeirri stöðu hér á Akureyri að þrátt fyrir mikla og stöðuga uppbyggingu á íþróttamannvirkjum er mikið púsl að koma öllum félögunum fyrir þannig að allir geti æft í viðunandi aðstöðu. Því miður eru ekki öll félög með aðstöðu eins og staðan er núna. Það er og verður áskorun að finna út úr því, en það er ástæða til að hrósa Akureyrarbæ fyrir metnað á þessu sviði. Það eru líklega fá sveitarfélög sem bjóða upp á fjölbreyttari aðstöðu til íþróttaiðkunar miðað við íbúafjölda en hér,“ segir hún.
Ávinningur af auknu samstarfi
Fyrr á þessu ári voru settar á laggirnar átta svæðisstöðvar á vegum ÍSÍ og UMFÍ en hlutverk þeirra er að þjónusta íþróttahéröð landsins í nærumhverfi sínu og með samræmdum hætti. Þær Þóra Pétursdóttir og Hansína Þóra Gunnarsdóttir voru ráðnar til starfa í svæðisstöð Norðurlands eystra og tóku til starfa í ágúst. Þær Jóna og Helga hlakka til samstarfsins við þær og segja að þær vilji leggja sérstaka áherslu á að sem flestir geti tekið þátt í skipulögðu íþróttastarfi með einhverjum hætti, ekki síst þeir sem eigi við einhverjar takmarkanir að stríða eða eru nýbúar í okkar samfélagi.
„Við leggjum okkur fram um að koma á samstarfi og efla upplýsingaflæði á milli okkar aðildarfélaga. Ýmis verkefni eru með þeim hætti að vel er hægt að sameinast um þau þannig að úr verði meiri ávinningur fyrir samfélagið okkar en ef hvert og eitt félag er að vinna í sínu horni,“ segja þær Jóna og Helga, en sem dæmi um slíkt má nefna sameiginlegar íþróttaæfingar á vegum Þórs og KA í vetur fyrir börn með sérþarfir og einnig sameiginlega opna fyrirlestra sem nýtast öllum aðildarfélögum, en það verkefni er unnið í samstarfi Akureyrarbæjar, Háskólans á Akureyri, ÍBA og ÍSÍ.
Kostnaðarsamt að halda úti afreksstarfi
ÍBA heldur veglega íþróttahátíð í janúar ár hvert í samstarfi við Akureyrarbæ þar sem íþróttakarl – og kona Akureyrar eru valin og heiðruð. Þá hefur ÍBA umsjón með úthlutun úr Afrekssjóði til þeirra sem mest afrek hafa unnið á liðnu ári sem og þeirra sem taldir eru efnilegir. Þær stöllur nefna að kostnaðarsamt sé að halda úti afreksstarfi og að vera afreksíþróttamaður utan höfuðborgarsvæðisins, ferðakostnaður sé umtalsverður. „ÍBA hefur ásamt fleirum lengi bent á þetta ójafnrétti og baráttan er smám saman að skila sér því nú hafa yfirvöld tekið fyrstu skrefin í að stofna Afreksmiðstöð Íslands sem mun styðja við og halda utan um þá sem stefna á afrek í sinni íþróttagrein. „Eitt af markmiðunum er að til reiðu sé ferðasjóður sem afreksíþróttafólk á landsbyggðinni getur sótt um styrk til vegna ferðakostnaðar innanlands þannig að þau standi jafnfætis þeim sem búa á höfuðborgarsvæðinu.