Hvernig Ísland breytti heiminum
Egill Bjarnason blaðamaður sem er búsettur á Húsavík gefur út sína fyrstu bók í maí, How Iceland Changed the World (is. Hvernig Ísland breytti heiminum). Hann hefur skrifað fyrir Associated Press, The New York Times, National Geographic og fleiri erlenda miðla.
Bókin kemur út 11. maí á ensku en það er bókaútgáfan Penguin Random House sem gefur hana út. Nú þegar er hægt að forpanta bókina.
Í bókinni er farið yfir þá ósögðu atburðarás sem varð til þess að ein örsmá eyja í miðju Atlantshafi hefur mótað heiminn í aldaraðir.
Í umsögn um bókina segir að saga Íslands hafi hafist fyrir 1200 árum þegar pirraður víkingaforingi og ónothæfur stýrimaður hans strandaði í miðju Norður-Atlantshafi.
Skyndilega var eyjan ekki lengur aðeins viðkomustaður kríunnar. Þess í stað varð til þjóð hvers diplómatar og tónlistarmenn, sjómenn og hermenn, eldfjöll og blóm breyttu heiminum að eilífu án þess að nokkur tæki eftir því.
How Iceland Changed the World býður lesandanum í ferðalag um söguna og sýnir hvernig Ísland gegndi lykilhlutverki í jafn ólíkum atburðum og frönsku byltingunni, tungllendingunni og stofnun Ísraelsríkis. Aftur og aftur hefur þessi auðmjúka þjóð lent í fremstu víglínu sögulegra atburða og mótað heiminn eins og við þekkjum hann. Bókin dregur upp lifandi mynd á skemmtilegan og broslegan hátt af því hvernig þetta allt gerðist.