20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Húsvíski Óskarskórinn syngur um borð í skemmtiferðaskipum
Ef einhver hélt að óskarsævintýri Húsavíkinga hefði lokið þegar Molly Sandén flutti lagið Húsavík – My Hometown úr Netflixmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga Óskarsverðlaunahátíðinni í vor en lagið var tilnefnt til Óskarsverðlauna.
Söngatriðið var tekið upp á Húsavík eins og frægt er orðið en 17 stúlkur, 10-11 ára úr 5. bekk Borgarhólsskóla á Húsavík sungu með sænsku poppstjörnunni og stálu eiginlega senunni; a.m.k. á Íslandi. Nú hefur Óskarskórinn svo kallaði fengið fleiri verkefni en tvívegs í sumar hafa stelpurnar verið fengnar til að skemmta farþegum í skemmtiferðaskipi Ocean Diamond sem siglir hringinn um Ísland. Skipið hefur reglulega viðkomu á Húsavík en ferðaþjónustuaðilar í bænum hafa unnið að því að skipið stoppi á Húsavík og að boðið sé upp á skemmtiatriði frá Húsavík um borð.
Hjálmar Bogi Hafliðason hefur tekið að sér kórstjórn fyrir stelpurnar og hefur fengið með sér valinkunna tónlistarmenn úr héraði.
„Ég var beðinn um að stýra stelpunum í þessu verkefni og ég fékk til liðs við okkur Unnstein Inga Júlíusson og Daníel Borgþórsson. Hafi þeir bestu þakkir fyrir. Að sjálfsögðu sungum við lagið Húsavík – My Hometown. Já, og Ja ja ding dong auk þess bæði ættjarðar og dægurlög,“ segir Hjálmar Bogi og bætir við að verkefnin hafi gengið vel og allir haft gaman að. „Stelpurnar stóðu sig reglulega vel og eru bænum til sóma. Í lokaferð skipsins var þeim boðið fyrr um borð og til kvöldverðar. Þær fengu líka sýnisferð um skipið.“
/epe