„Húsavík hefur upp á margt að bjóða og staðsetning Kaupfélagshússins í miðbænum er frábær“
Að undanförnu hefur Gb5 ehf. kynnt sögu Garðars sem er hluti af Kaupfélagshúsinu á Húsavík og í framhaldi af því ákvörðun um breytingar á húsinu. Við hittum Gunnar Jóhannesson sem vinnur með eigendum Gb5 að þróunarverkefni í Kaupfélagshúsinu auk þess að stýra Travel North sem er ferðaskrifstofa á jarðhæð í Garðari.
Undanfarið hefur verið unnið að þróunarverkefni í Kaupfélagshúsinu sem heldur m.a. utan um afmörkuð viðfangsefni, ásamt stefnu og framtíðarsýn Gb5. Þar hefur t.d. verið horft til starfa án staðsetningar og m.a. boðið upp á vinnustöðvar í opnu rými í Kaupfélagshúsinu auk hefðbundinna skrifstofa. Gunnar segir verkefnið afar áhugavert og sér fyrir sér að fá fleiri aðila til samstarfs. „Húsavík hefur upp á margt að bjóða og staðsetning Kaupfélagshússins í miðbænum er frábær. Horft hefur verið til uppbyggingar annarsstaðar á landinu m.a. á Selfossi. Æskilegt væri að fleiri kæmu að þessu og áhugavert væri að efna til samstarfs við sveitarfélagið og fleiri um þessa framþróun,“ segir hann.
Þessi mynd sýnir stílfærða handteikningu sem dregur fram þær hugmyndir sem við erum að vinna með í dag. Að þessu sinni er unnið með austurhlið hússins. Aðalandlit húsanna er vestan megin, en sú hlið sem snýr að Ketilsbrautinni og bílastæðinu er ekki síður mikilvæg, því þar koma flestir að.
Garðari breytt
Nýlega var kynnt ákvörðun Gb5 að fara í breytingar á Garðari. Hugmyndirnar miða að því að bæta aðgengi að jarðhæð Garðars auk þess sem ráðist verður í mikilvæga endurgerð á þaki hússins. Viðbyggingar á jarðhæð austan megin verða endurgerðar og stækkaðar til að samræma útlit og létta svip austurhliðarinnar frá suðurgaflinum að lyftuhúsinu. Lagt er upp með einfaldar og stílhreinar viðbyggingar sem dragi ekki um of athygli frá húsunum sem fyrir eru, auk þess sem nýr og opnari inngangur mun hleypa aukinni dagsbirtu inn í anddyrið.
„Markmiðið er annars vegar að tengja við söguna, samanber áform um endurgerð þaksins á Garðari, en um leið uppfæra húsið ef svo má segja,“ útskýrir Gunnar.
Varðveita söguna
Upphaflegur tilgangur Gb5 var að varðveita Kaupfélagshúsið í miðbæ Húsavíkur sem vettvang þekkingar- og þróunarstarfsemi í bland við þjónustu, verslun og mannlíf. Þar styddi hvað annað með sameiginlegum kaffistofum og styrkurinn fælist m.a. í staðsetningunni, aðstöðunni og sögunni.
Framangreindar hugmyndir eru hluti af því viðvarandi verkefni Gb5 að skerpa á þessu hlutverki Kaupfélagshússins hér á þessum góða stað í miðbæ Húsavíkur, samfélaginu til gagns um framtíð. „Húsið hefur í áratugi verið vettvangur reksturs, þjónustu, verkefna af ýmsu tagi, nýsköpunar og frumkvöðlastarfs,“ segir Gunnar.
Íslandsbanki flytur í Garðar
Nú þegar hefur verið tilkynnt um að útibú Íslandsbanka muni flytja sig um set á Húsavík en samið hefur verið við Gb5 um leigu á 1. hæð í þeim hluta sem nefnist Garðar. Stefnt er að flutningi um miðjan apríl 2023 að afstöðnum lagfæringum sem hefjast í október. Margrét Hólm Valsdóttir útibústjóri Íslandsbanka á Húsavík segir að flutningurinn muni styðja við og efla þjónustu bankans á svæðinu. „Við hlökkum til flutningsins, enda kemur nýtt húsnæði til með að styðja við og efla þjónustu okkar á svæðinu. Öll hönnun og virkni nýja útibúsins tekur mið af sveigjanleika í skipulagi, nýrri tækni, öflugri ráðgjöf og persónulegri þjónustuupplifun,“ segir hún. Það má segja að flutningarnir séu sögulegir en útibúið hefur verið til húsa í núverandi húsnæði sínu að Stóragarði 1 frá upphafi. Það er því viðeigandi að útibúið flytji í sögufrægt hús eins og Kaupfélagshúsið.
Gunnar segir að undirbúningur breytinganna sé þegar hafinn enda sé um stóra framkvæmd að ræða. „Það er verið að vinna í nauðsynlegum undirbúningi framkvæmda og áformað að hefja framkvæmdir í október. Hér er um verulegt verkefni að ræða sem mun taka talsverðan tíma en vonandi verður næsti vetur hagstæður til framkvæmda,“ segir Gunnar og bætir við að á framkvæmdatíma verði verulegar tilfærslur innanhúss. Rifið verði innan úr tveimur neðstu hæðunum í Garðari og byggt upp nýtt gólf í samræmi við gólf í aðalanddyrinu.
Flytur innanhúss
Það liggur fyrir að vegna breytinganna í Garðari muni fyrirtæki Gunnars, Travel North flytja sig um set innan hússins. „Okkar starfsemi í Travel North ehf. flytur t.d. tímabundið af jarðhæðinni í Garðar upp á efri hæðir í aðalbyggingunni. Travel North er ferðaskrifstofa sem er fyrst og fremst í skipuleggja ferðir erlendra viðskiptavina til Íslands og þessi þáttur hefur verið að eflast og vaxa, bæði í ferðum með leiðsögn og skipulag fyrir „bílaleigufólk,““ útskýrir Gunnar og bætir við að félagið sé auk þess umboðsaðili bílaleigu.
„Dótturfyrirtæki Travel North er TN ehf. sem heldur utan um ferðaþjónustubílana sem við notum. Starfsemin er að vaxa, starfsmenn eru 7 eins og er og útlit fyrir að fjölgi á næstunni. Framundan eru því tækifæri til að skipuleggja betur okkar vinnuaðstöðu og því er ég ánægður með tækifærin sem gefast með þessum framkvæmdum í húsinu. Við erum að vinna að því að efla okkar starfsemi enn frekar og ýmislegt fleira er í pípunum á vegum þróunarverkefnis Kaupfélagshússins,“ segir Gunnar að lokum.