20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Hús vikunnar: Lyngholt í Glerárþorpi
Að þessu sinni færi ég mig norður yfir Glerá, en víða um Þorpið má finna eldri hús sem áður voru sveitabæir eða smábýli. Eitt þeirra er Lyngholt sem stendur við samnefnda götu skammt norðan Glerár, steinsnar frá Hörgárbraut. Upprunalega var byggður bær í Lyngholti árið 1903 og munu fyrstu ábúendur hafa verið þau Aðalsteinn Halldórsson og Kristbjörg Þorsteinsdóttir. Hann lést árið 1914 en hún bjó þar áfram ásamt börnum sínum. Árið 1927 stóð Kristbjörg fyrir byggingu veglegs steinhúss í Lyngholti sem enn stendur. Húsið er tvílyft steinsteypuhús á kjallara, með lágu risi. Á þaki er bárujárn, veggir múrsléttaðir og tvískiptir þverpóstar í gluggum.
Á meðal sex barna Kristbjargar og Aðalsteins var Steingrímur (1903 - 1993) verkalýðsleiðtogi og alþingismaður en hann sat á þingi fyrir Sameiningarflokk Alþýðu (Sósíalistaflokkinn) árin 1942-53, forseti efri deildar þingsins 1942-46. Hann bjó á Lyngholti til 1932 og hefur væntanlega komið að byggingu steinhússins ásamt móður sinni og systkinum. Einhver búskapur var í Lyngholti framan af, eins og títt var í Glerárþorpi, en oftast var honum sjálfhætt þegar þéttbýli tók að myndast í Þorpinu. Gatan Lyngholt tók að byggjast á sjötta áratug síðustu aldar og fékk bærinn númerið 10 við hina samnefndu götu. Elstu heimildir sem finnast á gagnagrunninum timarit.is um Lyngholt 10 eru frá 1957.
Lyngholt er lítt breytt frá upphafi að ytra byrði en er í mjög góðri hirðu og er til mikillar prýði í umhverfi sínu. Tvær íbúðir munu í húsinu, hvor á sinni hæð. Það er álit undirritaðs, að býlin í Glerárþorpi, og fyrrum býli inni í þéttbýli yfirleitt eigi að hljóta ótvírætt varðveislugildi eða jafnvel friðun. Myndin er tekin þann 18. júní 2011.
Lesendum er velkomið að senda höfundi ábendingar eða annan fróðleik á póstfangið hallmundsson@gmail.com