Hús vikunnar: Brekkugata 3
Gleðilegt sumar kæru lesendur. Í fyrsta pistli sumarsins erum við stödd í miðbænum, en við vestanvert Ráðhústorg stendur eitt stærsta timburhús bæjarins, Brekkugata 3. Þá hafa líklega fá hús hér í bæ tekið viðlíka miklum breytingum frá upphafi og Brekkugata 3. Húsið er þrílyft bárujárnsklætt timburhús á steinsteyptri jarðhæð, alls á fjórum hæðum, og með lágu aflíðandi risi með broti (mansard). Á bakhlið eru útskot og stigbygging og þá er húsið samtengt bakhúsi, Brekkugötu 3b og er það hús steinsteypt.
Brekkugötu 3 reisti hinn þýski Hinrik Bebensee árin 1902-03. Hann var klæðskeri eða skraddari og bjó og stundaði iðn sína í húsinu. Árið 1907 byggði Bebensee við húsið til norðurs og breikkaði húsið um „sex álnir“ (ca. 3,8m) til vesturs. Upprunalega var húsið tvær hæðir með lágu risi en á þriðja áratugnum réðst þáverandi eigandi, Sveinn Bjarnason, í miklar stækkanir á húsinu, m.a. byggði hann þriðju hæð þess. Árið 1960 var byggt við jarðhæð hússins til suðurs og rúmum tveimur áratugum síðar var reist tengibygging milli hússins og bakhússins Brekkugötu 3b. Það hús var byggt í áföngum á 4. og 5. áratugnum. Þannig er breytingasaga hússins orðin löng og viðamikil.
Húsið hefur frá upphafi hýst hina ýmsu þjónustu- og iðnaðarstarfsemi, allt frá tíð klæðskerastofu Bebensee og yrði allt of langt mál að telja það allt upp í þessari grein. Þó má nefna m.a. Sparisjóð, hárgreiðslustofur, saumstofu og verslunina Tiger. Efri hæðir hafa alla tíð verið íbúðarrými. Ljóst má vera, að í Brekkugötu 3 hafa vafalítið þúsundir manna starfað og búið og fólk á öllum aldri á eflaust ýmsar minningar um einhverja verslun eða starfsemi þarna. Á efri hæðum hússins eru nú nokkrar leiguíbúðir en veitingastaðurinn T-Bone Steakhouse á jarðhæð. Myndin er tekin þann 18. ágúst 2015.