20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Heiðaraðar fyrir áratuga starf í þágu samfélagsins
Kvenfélag Húsavíkur kom saman í síðustu viku til að heiðra þær félagskonur sem eru eða verða 80 ára á árinu.
Aðalbjörg Sigurðardóttir, formaður félagsins sagði í samtali við Vikublaðið að venjan væri að slík heiðrun færi fram á aðalfundi, en þar sem svo margar konur verða 80 ára á árinu var ákveðið að halda sér samkomu til heiðurs konunum.
Aðalbjörg Sigurðardóttir, formaður Kvenfélags Húsavíkur.
Blaðamaður Vikublaðsins heimsótti samkomuna en þar var falleg og góð stemning. Veisluborðin voru hlaðin kræsingum eins og kvenfélagskonum er einum lagið og hjónakornin Svava Steingrímsdóttir og Brynjar T. Baldursson sáu um tónlistaratriðin.
Það er óhætt að segja að Kvenfélag Húsavíkur hafi verið hornsteinn samfélagsins í aldanna rás en það var stofnað 13. febrúar árið 1895. Konurnar sex sem voru heiðraðar hafa allar gefið vinnu sína til samfélagsins áratugum saman og eru hvergi nærri hættar. Ein þeirra, Katrín Eymundsdóttir gekk til að mynda í félagið árið 1967. Það eru 55 ár af ómetanlegu sjálfboðastarfi fyrir nærsamfélagið.
Aðalbjörg hafði enda á orði áður en hún færði þessum heiðurskonum blómvönd að starf þeirra í þágu samfélagsins væri ómetanlegt.
„Það er ekkert sjálfgefið að gefa vinnuna sína áratugum saman og í dag er bara ekkert auðvelt að fá fólk til að vinna fyrir ekki neitt. Fyrir ykkar framlag erum við ómetanlega þakklátar. Samfélagið allt ætti að vera þakklátt því að það er fyrir svona konur að Kvenfélagið hefur getað gefið af sér jafn mikið fyrir samfélagið og raun ber vitni í gegn um tíðina og verið jafn mikils virði fyrri jafn marga,“ sagði hún áður en heiðurskonurnar stilltu sér upp fyrir myndatöku.