Halla Stefánsdóttir sér um matarkrók vikunnar

Halla Stefánsdóttir
Halla Stefánsdóttir

Halla Stefánsdóttir kemur hér með nokkrar úrvals uppskriftir.

Buff – Höllu-hamborgari :

600 gr ungnautahakk eða folaldahakk (sett í skál)

2 eggjum bætt út í

1 mulinn/uppleystur nautakraftteningur

½ vel saxaður laukur (ef vill)

Vel af sítrónupipar

Grænmetissalt eftir smekk

Oreganó og timian (ef vill)

Smá sinnepsfræ (mulin) Hræra saman, ekki of mikið.

Blanda út í 3-4 msk. hveiti.  Látið bíða um stund.

Aðferð:

Steikið 1½ lauk á pönnu og setjið á disk.  Mótið buffin og steikið, þau eru góð þykk en mega samt ekki vera of bollulaga.  Setjið laukinn á pönnuna þegar búið er að snúa buffunum.

Ég mæli með salati, einmitt því sem þú ert hrifin af, til dæmis blandað salat:

Gúrkusneiðar

tómatar skornir

bláberavókadó

grísk jógúrt

jarðarber

ananas

rifnar gulrætur

rófur

kotasæla

fræ

Nota það sem til er hverju sinni.  Ef þú ert fyrir kartöflur brytjaðu þá nokkrar niður og settu á pönnuna á meðan eldun stendur yfir.  Venjulega set ég salatið fyrst á diskana og buffið seinast á borðið.  P.s. þú þarft ekkert brauð.   Af þessum mat hef ég aldrei átt afgang daginn eftir.  

Gott meðlæti með öllum mat

2 avókadó

3 pink lady epli

Grísk jógúrt

Sítrónusafi úr hálfri sítrónu  

Graskerfræ,

sólblómafræ

sesamfræ

Teriyakisósa ef vill

Flysja epli og brytja niður ásamt avokadó, sítrónusafi settur út á og öllu blandað saman.

 Ekta spariappelsínu-sítrónubúðingur :

2 egg

½-1 dl sykur

5 blöð matarlím

 ½ sítróna

2 appelsínur (ekki stórar)

 2½ dl rjómi (þeyttur)

Aðferð:

Matarlím lagt í bleyti í ca. 10 mínútur.  Egg og sykur þeytt saman þar til ljóst og létt.  Pressið safann úr sítrónu og appelsínum, takið matarlímið úr bleyti og bræðið yfir vatnsbaði.  Safinn og matarlímið blandist saman við egg og sykur með þeytara.  Látið standa á meðan rjóminn er þeyttur, blandið rjómanum varlega saman við.  Látið í skál/skálar og látið bíða í ísskáp í ca 4-7 klst.  Raspið súkkulaði yfir og berið fram með rjóma.  Þennan hef ég gert síðan ég byrjaði í matreiðslu 12 ára. Hann hefur aldrei klikkað.

„Ég skora á Ásdísi Sæmundsdóttur, samstarfskonu mína í næsta matarkrók.“

Nýjast