20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Grafík heldur stórtónleika á Græna hattinum
Félagarnir Stebbi Jak úr hljómsveitinni Dimmu og Andri Ívars gítarleikari halda tónleika á Græna hattinum annað kvöld, fimmtudag. Sem fyrr mun þeir flytja öll bestu föstudagslögin, hvort sem það er þungarokk, hugljúfar ballöður, poppmúsík og allt þar á milli. Tónleikarnir hefjast kl. 21.00.
Í tilefni þess að 30 ár eru liðin frá útgáfu plötunnar „Leyndarmál“ með hljómsveitinni Grafik verða haldnir stórtónleikar á Græna hattinum annað kvöld, föstudagskvöldið 1. desember. Þessi goðsagnakennda hljómsveit starfaði við miklar vinsældir og gott orðspor á níunda áratug síðustu aldar og var hljómplatan „Leyndarmál“ enn ein skraufjöðurin í hatt hennar, enda fékk platan feikna góða dóma og einstakar viðtökur, þá sérstaklega lögin Presley og Prinsessan.
Upptökur á plötunni hófust í október 1986 eftir mannabreytingar en vinnslu lauk ekki fyrr en í ágúst 1987 og kom platan út 5. nóvember það ár. Þegar hér var komið við sögu skipuðu hljómsveitina þau Andrea Gylfadóttir söngkona, Baldvin Sigurðsson bassaleikari, Hjörtur Howser hljómborðsleikari, Rafn Jónsson trommuleikari og Rúnar Þórisson gítarleikari. Grafík kom síðast fram með þessari skipan um áramótin 1987-88 á áramótadansleik á Hótel Íslandi þannig að hér er um einstakan viðburð að ræða. Á tónleikunum mun Egill Örn Rafnsson fylla skarð föður síns sem lést árið 2004. Tónleikarnir hefjast kl. 22.00.
Lúðarnir snúa aftur á Græna hattinn laugardaginn 2. desember. „Leppalúðar og létt jólatónlist er bráðskemmtilegt skemmtikvöld þar sem þjóðþekktir grínistar og tónlistarmenn láta móðinn mása í tali og tónum. Þetta eru þeir Röggi, Summi og Valur úr Hvanndalsbræðrum ásamt Sóla Hólm útvarps- sjónvarps- og uppistandsstjörnu og hinu víðförla kyntákni landsbyggðarinnar Gísla Einarssyni frá Borgarnesi.
Hér verða sagðar skemmtilegar jólasögur, leikin nokkur jólalög og drukkið talsvert jólaglögg. Tilvalin skemmtun fyrir fólk sem vill létta sér lundina fyrir jólin og finna hinn sanna jólavínand,“ segir í tilkynningu. Skemmtunin hefst kl.20.00. Aukasýning hefur verið bætt við kl.23.00 og er uppselt á hana.