Gluggasýningin Jólaævintýrið í Hafnarstræti 88
Jólaævintýrið er heiti á gluggasýningu sem stendur yfir í Hafnarstræti 88 þar sem Brynja Harðardóttir Tveiten myndlistarkona starfrækir vinnustofu sína. Þetta er sjötta gluggasýning ársins á vinnustofu Brynju sem einkennist að þessu sinni af umvefjandi jólatöfrum og nostalgíu þar sem jólaskraut sem man tímanna tvenna leikur aðalhlutverk. Sýningin var opnuð fyrsta sunnudag í aðventu og stendur út jólahátíðina. Hún hentar hvort heldur sem er ungum eða öldnum jólabörnum og er aðgengileg öllum stundum þar sem hennar er notið utan frá séð.
Sýningin hentar hvort heldur sem er ungum eða öldnum jólabörnum og er aðgengileg öllum stundum þar sem hennar er notið utan frá séð.
„Þetta er virkilega skemmtilegt verkefni og mjög gefandi að setja það upp,“ segir Brynja sem ásamt systur sinni Áslaugu Harðardóttur Tveiten, öðru nafni Fröken Blómfríður á heiðurinn af sýningunni. Glugginn er styrktur af menningarsjóði Akureyrarbæjar. Þetta er í annað sinn sem þær systur setja upp jólasýningu og hafa innilega gaman af. „Við hvetjum fólk til að gera sér ferð framhjá glugganum og stíga með okkur inn í Jólaævintýrið um stund,“ segir Brynja.
Glugginn á sér fasta aðdáendur
Margt var um manninn fyrsta í aðventu þegar gluggasýningin var opnuð. Margir gerðu sér ferð fram hjá glugganum, stöldruðu við og lifðu sig inn í jólaævintýrið, meðan aðrir sem voru meira á spani og upplifðu töfrana rétt á meðan gengið var hjá. „Við settum sýninguna upp sem sögusvið þannig auðvelt er að búa sér til söguþráð eða atburðarás. En þá er mikilvægt að stoppa um stund og skoða gluggann og smáatriðin gaumgæfilega. Það er gaman að segja frá því að glugginn á sér fasta aðdáendur sem fylgjast vel með þegar kemur ný sýning. Sumir koma aftur og aftur og taka gjarnan aðra með sér. Eins er sérstaklega gaman að heyra í börnunum sem kíkja á gluggann ekki síst hjá þeim sem eru á snjóþotu því þau eru í fullkominni augnhæð til að njóta sýningarinnar. Svo er glugginn vinsæll hjá ferðafólki sem talar hin ýmsu tungumál og þó maður skilji ekki orðin þá heyrir maður og skilur hrifninguna i raddblænum,“ segir Brynja“.
Ef vel er rýnt í myndina má sjá Brynju bregða fyrir í jólakúlunni.
Marineruð nostalgía
Hún segir þær systur vilja lífga upp á umhverfið og hvetja vegfarendur til að staldra við í dagsins önn, leyfa hugmyndarfluginu að leika lausum hala. Njóta þess að eiga friðsæla stund eða deila upplifuninni með öðrum, bregða jafnvel á leik, búa til sögur, telja jólasveinana, finna íkornann, kettlingana og fuglinn, velja sér fallegasta, skrýtnasta og ljótasta jólaskrautið og taka myndir. „Fyrst og fremst vakir fyrir okkur að skapa upplifun þessa stund sem staðið er við gluggann þar sem fólk slakar á og umvefur sig hlýju og gleði jólanna. Þetta er marineruð nostalgía í hæstu hæðum sem nærir jólaandann“ segir Brynja.
Fyrr á árinu hafa þær Brynja og Áslaug sett upp fimm gluggasýningar en þær nýta glugga vinnustofunnar gjarnan til að taka þátt í viðburðum sem eru í gangi hverju sinni og eða árstíðum, sem dæmi var sýning í glugganum í tengslum við barnamenningarhátíð, mottumars og sjómannadaginn. „Þessar sýningar hafa vakið athygli og við erum þakklátar fyrir það þannig að ég geri ráð fyrir að við höldum uppteknum hætti á komandi ári.“