Geta vart lýst ánægjunni að fá loks að halda tónleika

Kammerkór Norðurlands. Mynd/KÞH
Kammerkór Norðurlands. Mynd/KÞH

Um helgina fara fram þrennir tónleikar á Norðurlandi með Kammerkór Norðurlands en þeir fyrstu fóru fram í gærkvöldi í Siglufjarðarkirkju

Laugardagur 15 maí: Tónleikar á Húsavík (sal barnaskólans) kl: 16.00

Sunnudagur 16 maí: Tónleikar í gamla Sal Menntaskólans á Akureyri kl: 16.00

„Við félagar í Kammerkór Norðurlands getum vart lýst því hve ánægð við erum með að fá nú loksins að halda tónleika, en á undanförnum mánuðum höfum við margoft skipulagt og undirbúið tónleika, en pestin ætíð hindrað framkvæmd,“ segir Ásgeir Böðvarsson, læknir og meðlimur kórsins. 

 Ásgeir Böðvarsson

Hann segir efnisskrána bera þess einnig merki að kórinn sé í eins konar ástandi milli verkefna.  

„Á fyrri hluta tónleikanna flytjum við valin kórlög frá Norðurlöndunum og einnig frumflytjum fjögur gullfalleg ný lög eftir stjórnandann Guðmund Óla Gunnarsson við ljóð Páls Ólafssonar,“ segir hann.

Á seinni hluta tónleikanna verða flutt lög við ljóð Davíðs Stefánssonar úr „Svörtum fjöðrum“. Fyrir einu og hálfu ári minntist kórinnt  þess að 100 ár voru liðin frá útkomu þeirrar frægu ljóðabókar og voru fjölmargir tónleikar haldnir að því tilefni. „Þetta verkefni endaði svo með því að öll lögin voru tekin upp síðasta haust og hljómdiskur gefinn út fyrir jól. „Lögin við ljóð Davíðs sem við flytjum að þessu sinni eru þau sem sérstaklega voru samin fyrir kórinn og völdu tónskáldin sjálf ljóðin og í sumum tilfellum var sama ljóðið valið tvisvar,“ útskýrir Ásgeir.

Kammerkór Norðurlands var stofnaður fyrir rúmum 20 árum og er skipaður söngfólki víða af Norðurlandi eða frá Kópaskeri til Sauðárkróks.  Stjórnandi er Guðmundur Óli Gunnarsson. Eitt af markmiðum kórsins hefur verið að flytja ný íslensk tónverk og hefur kórinn gefið út 3 hljómdiska með íslenskri kórtónlist.

Einnig hefur kórinn í samstarfi við aðra flutt Krýningarmessu Mozarts, Sálumessu Verdis, Messu eftir C. M. Widor, Messu fyrir tvo kóra eftir Frank Martin, Óratóríuna Messías eftir Händel, Jólaóratóríuna og Mattheusarpassíuna eftir J. S. Bach og Magnificat eftir John Rutter.

Einnig hefur kórinn tekið þátt í flutningi á Völuspá eftir Þorvald Bjarna og tónleikum í Hofi  með kvikmyndatónlist Atla Örvarssonar auk tónleika með Todmobile, Dimmu og Steve Hackett - svo dæmi séu tekin.

„Við vonum að Norðlendingar nýti tækifærið til að mæta á ný á tónleika eftir langt hlé og munum að sjálfsögðu gæta sóttvarna í hvívetna,“ segir Ásgeir Böðvarsson að lokum.

Nýjast