Föstudagsfréttir úr Hrísey

Lúpínan er víða     Mynd www.hrísey.is
Lúpínan er víða Mynd www.hrísey.is

Sumarblíða hefur verið í Hrísey alla vikuna og eyjaskeggjar flestir búnir að skipta um lit.

Þau gleði tíðindi bárust á laugardagsmorgni að verkfalli væri lokið og því hefur sundlaugin verið opin þessa blíðviðrisdaga. Fjölmenni var gestkomandi í Hrísey um síðustu helgi og talað var um að bæði fjöldinn og gleðin væri góð upphitun fyrir sumarhátíðirnar sem hér verða í sumar. Eyjan sýndi sínar bestu hliðar og heimamenn gerðu það líka.

Talandi um hátíðir, þá eru nú þrjár vikur í Hríseyjarhátíðina en hún verður haldin 7.-9. júlí. Auglýst var í gær eftir aðilum sem til eru í að halda garðakaffi  á hátíðinni og þegar þetta er ritað hafa þrjú hús skráð sig til leiks. Garðakaffið er skemmtileg hefð þar sem boðið er upp á smá veitingar í görðum um allt þorp og tilvalið að rölta á milli, spjalla, njóta og hafa gaman. Skráning í garðakaffi er í facebookhópnum Hrísey - myndir og fréttir. 

Hinsegin dagar í Hrísey verða haldnir í fyrsta sinn síðustu helgi júlímánaðar, 28.-30. júlí. Dagskrána þar hefur verið að taka á sig skemmtilega mynd og hægt er að fylgjast með undirbúningi og dagskrá á Instagramsíðu hátíðarinnar Hinsegin Hrísey. 

Danshátíðin í Hrísey er svo 18.-19. ágúst og mun dagskráin verða auglýst betur þegar nær dregur hér á síðunni.

Vinnuskóli Akureyrarbæjar í Hrísey hóf störf í vikunni. Eru tvö ungmenni skráð í vinnuskólan þetta sumarið og hefur þessi fyrsta vika þeirra verið þeim góð með sól og blíðu.

Byggðastofnun hefur fengið KPMG til þess að ráðast í úttekt á verkefninu Brothættar byggðir og sett af stað íbúakönnun sem liður í þeirri úttekt. Eru Hríseyingar hvattir til þess að taka þátt og hægt er að gera það hér.

Það var ánægjulegt að sjá að tjaldstæðið hefur verið í notkun í vikunni sem er að líða. Aukinn straumur ferðamanna sem stoppa lengur en dagspart er greinilegur sem og fjöldi þeirra sem kíkja til okkar í styttri heimsóknir. Nokkur skemmtiferðaskip hafa stoppað við eyjuna og hafa farþegar þeirra haft orð á þvi hve mikið Hrísey kemur á óvart þegar hingað er komið. Við virkum víst frekar lítil og varla í byggð séð frá sjó... En hér er svo sannarlega búið og mikið líf! 

Í kvöld eru tónleikar á Verbúðinni 66 og er það Svavar Knútur sem kemur til okkar og flytur frumsamið efni og sígild sönglög. Hefjast tónleikarnir klukkan 21:00 og vissara að mæta snemma til þess að ná sæti.

Á morgun er fullveldisdagur Íslands, 17.júní. Ekki er nein formleg dagskrá hér í Hrísey í ár. Verbúðin verður með opið milli 14:00 og 18:00 þar sem hægt verður að versla sér öl, smárétti, kaffi og pönnsur. Íþróttamiðstöð og sundlaug eru lokuð þann daginn en opna aftur á sunnudag. Hríseyjarbúðin verður opin frá 12:00-17:00

Ungmennafélagið Narfi bauð upp á fótboltaæfingar í vikunni fyrir grunnskólabörn. Var mikil gleði að fá Helga þjálfara aftur til Hríseyjar á nokkrar æfingar.

Í næstu viku verður íbúafundur á bókasafninu, nánar til tekið á miðvikudaginn klukkan 16:15. Verið er að rannsaka ábyrga eyjaferðaþjónustu í samstarfi við Markaðsstofu Norðurlands og Akureyrarbæ. Gagnasöfnun hefst í Hrísey og byrja á að ræða við íbúa svo við hvetjum sem flest til þess að mæta.

Auglýst hefur verið eftir umsjónarkennara í 100% stöðu við Hríseyjarskóla og stuðningsfulltrúa í 50% stöðu. Við hvetjum áhugasöm til þess að kynna sér skólan, Hrísey og samfélagið. Hríseyjarskóli er frábær skóli en fréttaritari hefur bæði gengið í Hríseyjarskóla og á þar börn svo það er reynslan sem ritar.

Veður um helgina verður áfram gott. Ein spáin sem skoðuð var fyrir föstudagsfréttir varar við smá vætu en aðrar segja skýjað á sunnudag. Hiti verður í kringum 20 gráður, meiri sól en minni. Það viðrar því vel til gönguferða, jafnt dag sem nótt, fyrir sjósundferðina (munið að fara ekki ein í það ævintýri) og að sjálfsögðu í sund á sunnudegi. Við viljum biðla til göngugarpa að halda sig sem mest við stígana þar sem varp og ungar eru viðkvæm svo snemma sumar. Hrísey er paradís fyrir fuglana og þannig viljum við hafa það áfram. 

Hús Hákarla-Jörundar er opið í sumar og er full ástæða til þess að hvetja fólk til þess að skoða sig um þar.   Mynd www.hrísey.is

Nýjast