„Fólk á að hafa metnað fyrir bænum sínum“

Þuríður Þráinsdóttir við Gullregnið sitt. Mynd/epe
Þuríður Þráinsdóttir við Gullregnið sitt. Mynd/epe

moldin


 

Þuríði Þráinsdóttur þekkja flestir Húsvíkingar en hún er svo sannarlega með mold undir nöglunum, enda gengur hún stundum undir nafninu garðyrkjudrottningin. „Ég kom þessu nafni reyndar sjálf á,“ segir hún og hlær innilega en hún hefur alla tíð haft áhuga á blóma og garðrækt. Vikublaði ræddi við Þuríði á dögunum.

„Fyrsta minningin í tengslum við blómaáhugann er frá því að ég var lítil stelpa. Þá kom pabbi ofan af heiðum með loðvíðir, rifsberjarunna og litla bláfjólu,“ segir Þuríður og bætir við að hún hafi ætíð verði hrifin af bláum blómum. „Ég sat alltaf við þetta blóm og horfði á það. Og einu sinni kom amma með fræ handa mér. Ég setti það niður við hliðina á bláfjólunni og fékk upp pínu lítið blátt blóm,“ segir hún og bætir við að enn þann dag í dag hefur hún ekki hugmynd um hvaða blóm þetta var.

 Ekki með lúpínunni í liði

Þó Þuríður sé hrifin af bláum blómum þá segist hún ekki vera í lúpínuliðinu. „Ég vil ekki sjá hana, vegna þess að hún veður yfir íslenskan gróður og drepur allt sem verður fyrir henni. Svo í kjölfarið kemur kerfillinn og þá er andskotinn laus,“ segir hún en viðurkennir að sumstaðar eigi lúpínan rétt á sér.

 Vill sjá metnað fyrir umhverfinu

Þuríður segist alltaf hafa verið náttúrubarn og hún hefur sterkar skoðanir á því hvernig bærinn á að líta út. „Fólk á að hafa metnað fyrir bænum sínum. Þetta er lítill bær, hér er mikið um ferðamenn og við eigum bara að bera metnað til þess að hann sé fallegur.“ Þuríður vinnur um þessar mundir í garðvinnu fyrir sveitarfélagið á Húsavík og hefur undan farið verið að setja niður blóm í blómaker bæjarins.

Þá segist Þuríður nota facebooksíðu sína óspart til að koma með sniðugar tillögur að því hvernig fegra megi umhverfi bæjarins. „Ég vil t.d. sjá verslunar og fyrirtækja eigendur bæjarins láta smíða fyrir sig festingar utan á veggi verslunarhúsa fyrir klifurplöntur og þekja þannig veggina með gróðri,“ segir hún en bætir við að þá þurfi auðvitað að taka það alla leið og hugsa vel um þetta.

Þá vill hún sjá setbekkjum fjölgað í bænum, t.d. við nýja göngustíginn á Stangarbakka. „Ef þú ert með fallegt svæði, þá er svo gott að setjast og njóta umhverfisins,“ segir Þuríður og bætir við að hún vilji sjá stórgrýti og bekki á grasflötina við Vínbúðina. „Og stilla þeim þannig upp eins og náttúran hafi komið þeim sjálf fyrir. Svo myndi ég vilja sjá bæinn semja við Agnar Kára um að hanna eitthvað flott merki sem mætti koma fyrir þar sem keyrt er inn í bæinn að sunnanverðu.“

 Samkeppni um fegurstu götuna

Þuríður hvetur sveitarfélagið til að standa að því að velja fallegustu og snyrtilegustu götu bæjarins ár hvert. „Ekki bara fallegasta garðinn, þá eiga bara fáir einhvern séns í þau verðlaun. Það eru nefnilega ekki allir með fagur græna fingur, en aftur á móti geta allir haft snyrtilegt í götunni sinni og því sem snýr að fallegri götumynd og það virkar hvetjandi á íbúa að vita að það á að velja fallegustu og snyrtilegustu götuna. Ég tel að slík útnefning myndi virkja bæinn á jákvæðan hátt.“

Þá hefur Þuríður verið dugleg við að taka myndir af því sem miður fer og því sem er vel gert og birta á facebook síðu sinni. Ég er ekkert sparsöm á hrósið þegar það á við. Við megum ekki bara gagnrýna, við verðum líka að hrósa,“ segir hún og bendir á að ábendingum hennar hafi oftast verið vel tekið og oft leitt til endurbóta.

 Bragðgóðir tómatar

Þura

Uppáhalds innplanta Þuríðar er tómatplantan. Hún er með talsvert af perlutómataplöntum sem hún gefur blaðamanni að smakka af og eru þeir einstaklega bragðgóðir. „Ég er hef verði að selja talsvert af þessum plöntum en þær eru hentugar í glugga þar sem þær verða ekkert voðalega háar. En þær eru fljótar að vaxa og agalega drykkfeldar,“ segir hún og hlær.

Það er fjöldinn allur af blómum og plöntum inni hjá Þuríði en sjálf segist hún hafa mestan áhuga á útiblómum og trjágróðri. „Uppáhalds tréin mín eru gullregn, sýrena og lerki,“ segir hún. Í garðinum hjá henni er hún einmitt með gullregn sem er undurfagurt á að líta og rétt í þann mund að byrja að blómstra. „Hún blómstrar fyrir mig á hverju sumri þessi elska,“ segir Þuríður að lokum.

Nýjast