Flóttamaður í 40 ár, ættfræði og glens um Akureyringa

Völuspá útgáfa sendir að þessu sinni fjölbreytta flóru bóka á jólamarkaðinn. Þrjár eftir sagnfræðinginn Jón Hjaltason en sú fjórða eftir frænda hans og fyrrverandi skólameistara Verkmenntaskólans á Akureyri, Bernharð Haraldsson.

Í ríkulega myndskreyttri bók, Saga Akureyrar í öðruvísi ljósi, stundum skemmtilegu, stundum sorglegu, jafnvel vandræðalegu en alltaf fróðlegu, tengir höfundur saman líflegan texta og mikinn fjölda ljósmynda sem margar hafa ekki birst á prenti fyrr. Víða er komið við í þessari fróðlegu og afar skemmtilegu bók. Hið óvenjulega í sögu Akureyrar er í sviðsljósinu, það sem síður er talað um og vill verða út undan.

Í bókinni, Markús, á flótta í 40 ár, öðruvísi Íslandssaga, segir sagnfræðingurinn Jón Hjaltason einstæða sögu Markúsar Ívarssonar sem andaðist 1923 og hafði þá verið eftirlýstur síðan 1881. Tekist er á við goðsagnir: Máttu fátækir giftast? Hvað með „falleraðar“ konur? Alræði bænda? Voru einstæðar mæður réttlausar? Fjallað er um tukthús og böðla, ótrúlegar skyldur presta, hór, legorð og faðernispróf 19. aldar – sem var býsna magnað.

Þriðja bókin er úrval grínsagna um íbúa bæjarins þar sem góða veðrið var fundið upp, sem sagt Akureyringa. Og er fullyrt að þetta sé fyndnasta bók þessara jóla.

Síðast en alls ekki síst skal talið tveggja binda ritverk Bernharðs Haraldssonar um Skriðuhrepp hinn forna. Sannkallað stórvirki. Hér segir Bernharð sögu 64 bæja í Öxnadal og Hörgárdal á 19. öld og tvinnar saman með einstæðum hætti sagnfræði, ættfræði og héraðslýsingu.

Nýjast