„Finnst það svo róandi að setja podcast í eyrun og þjóta af stað“
Ármann Örn Gunnlaugsson stendur á þrítugu en hann er Húsvíkingur í húð og hár. Ármann bjó á Húsavík fyrstu 20 ár ævinnar áður en hann fór á flakk. „Síðustu 10 ár eða svo hef ég verið töluvert á flakki en þó alltaf með ræturnar á Húsavík. Tvítugur fór ég í nám í Bandaríkjunum, Birmingham, Alabama, í viðskipta- og hagfræði ásamt því að spila fótbolta. Svo tóku við tvö ár í framhaldsnámi við Háskólann í Reykjavík, með viðkomu eina önn í skiptinámi í París. Því næst var förinni heitið til Sviss þar sem kærasta mín var í námi og nú er maður aftur kominn til Húsavíkur,“ segir Ármann sem er Norðlendingur vikunnar. Ármann hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Sjóbaðanna á Húsavíkurhöfða og segist hann vera mjög spenntur fyrir þeirri áskorun. „Þetta er spennandi verkefni sem gaman verður að takast á við.“