Fékk verðlaun fyrir sína fyrstu skáldsögu
Anna Hafþórsdóttir frá Akureyri fékk nýverið verðlaun í handritasamkeppni Forlagsins sem nefnist Nýjar raddir fyrir bókina sína Að telja upp í milljón sem er nýlega komin út. Handritasamkeppnin snýst um að finna nýjar raddir í íslensku bókmenntalífi en keppnin var nú haldin í fjórða sinn. Skilyrði fyrir þátttöku er að höfundur handrits hafi ekki gefið út fleiri en eitt prósaverk áður hjá atvinnuforlagi. Alls bárust 47 handrit til dómnefndar og veru tveir sem fenguð verðlaun en auk Önnu fékk Einar Lövedahl verðlaun fyrir skáldverkið í Miðju mannhafi.
Að telja upp í milljón eftir Önnu Hafþórsdóttur er áhrifarík saga um flókin fjölskyldutengsl, áföll og samskiptaleysi en líka um ástina og lífið. Þetta er fyrsta skáldsaga Önnu sem áður hefur sent frá sér smásögur og ljóð. Sagan segir frá Rakel en daginn sem kærastinn hennar yfirgefur hana fer tilvera hennar á hvolf. Áfallið er mikið því Rakel, sem ólst upp við erfiðar aðstæður, hefur ekkert samband við fjölskyldu sína og á fáa vini. En þegar hún óttast að vera að missa tökin fær hún óvænta heimsókn.
„Mikil hvatning“
Anna er leikkona, handritshöfundur og með Bs gráðu í tölvunarfræði. Hún útskrifaðist með meistaragráðu úr ritlist við Háskóla Íslands árið 2019. „Ég er rosalega þakklát og glöð og þetta er mikil hvatning til að halda áfram að skrifa,“ segir Anna í samtali við Vikublaðið. Hún byrjaði að skrifa bókina árið 2018. „Ég var að læra ritlist þá í Háskóla Íslands og ákvað að gera þetta að lokaverkefninu mínu þannig að ég fékk gott rými til að einbeita mér að henni fyrripart árs 2019. Síðan þá hef ég verið að vinna í henni með hléum. Mér fannst gaman að leika mér með nostalgíu í þessum endurlitum í sögunni og setti inn alls konar smáatriði sem ég tengi við frá því að ég var barn og unglingur. En annars er söguþráðurinn allur skáldskapur frá A til Ö. Ég hugsa að persónurnar séu allar samblanda af allskonar fólki sem ég hef kynnst eða heyrt af og svo þróar maður þær áfram og spinnur í kringum það.“
Anna segir að sagan hafi byrjað sem smásaga. „En ég fann strax að mig langaði að vinna hana áfram og stækka.“ Það er nóg að gera hjá Önnu sem segist þegar vera byrjuð að velta næstu skáldsögu fyrir sér. „Svo er ég líka að skrifa leikna sjónvarpsþætti sem Zik Zak ætla að framleiða og mun halda áfram að fínpússa handritin af sjónvarpsþáttunum með hjálp frá góðu fólki,“ segir Anna Hafþórsdóttir.