"Far away, right here - Langt í burtu hérna

Martin Cow fyrir framan safnahúsið á Húsavík. Mynd/husmus.is
Martin Cow fyrir framan safnahúsið á Húsavík. Mynd/husmus.is

Ljósmyndarinn Martin Cox, búsettur í Los Angeles, fæddur í Englandi, mun í sumar halda einkasýninguna “Far away, right here” eða “Langt í burtu, hérna” í Safnahúsinu á Húsavík.

Margar myndanna á sýningunni eru afrakstur mánaðarlangrar dvalar Martins í Fjúk listamiðstöð á Húsavík sumarið 2016. Meðan á dvölinni stóð kannaði Martin ströndina í vetrarbúningi og bjó til myndaröð undir áhrifum af landslagi og sögu Húsavíkur .

Martin Cox hefur síðastliðna viku unnið að uppsetningu á ljósmyndasýningu sinni á neðstu hæð Safnahússins. Um helgina birtist viðtal við Martin í Nordicstyle Magazine, þar segir hann frá sýningunni og tildrögum hennar. Viðtalið má nálgast hér

Formleg opnun verður laugardaginn 10. júní. Við það tilefni verður listakonan Þóra Sólveig Bergsteinsdóttir með gjörning. Hún hefur kannað líkamann, hreyfingu og náttúru í list sinni frá því hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2004.

Martin Cox

Lykilverkið í sýningu Martin Cox er afar stór klippimynd (collage), mynd af Húsavíkurhöfn gerð úr hundrað handprentuðum ljósmyndum. Myndirnar tók Martin af Húsavíkurhöfn við fjölbreytileg birtu- og veðurskilyrði. Í verkinu segir Martin á sjónrænan hátt sögu hafnarinnar, starfseminnar sem þar fer fram, viðskipta og mannlífs. Veðrið, fjöllin, skipin og birtan leika aðalhlutverk í myndunum. Hann bætir einnig sögulegri vídd í verkið með myndum úr Ljósmyndasafni Þingeyinga af lífinu við höfnina í gegnum tíðina. Framtíðin birtist einnig í verkinu í myndum af heimabörnum teknum af foreldrum.

Verkið vann Martin að mestu í vinnustofu sinni í L.A., en síðustu myndunum verður bætt í verkið við uppsetningu í Safnahúsinu. Á sýninunni verður einnig nánast “eintóna” röð landslagsmynda, myndaröðin „Snjóteikningar” dregur fram „minimalismann” í landslagi undir snjó.

Litir og skali eru viðfangsefni þriðju myndaraðirnnar. Þar sem myndefnið er snjóruðningar við götur Húsavíkur. Í samspili götulýsingar og ljósaskipta verður til einstök birta sem lýsir upp þessi sköpunarverk sem að hluta eru manngerð.

Martin skýrir áhuga sinn á landslagi: „Ég vinn með landslag til að sjá það betur. Landslagið er birtingarmynd okkar og okkar athafna til langs tíma. Uppblástur, landnotkun, landbúnaður, jarðfræði, veður, iðnaður og flekaskil, vísbendingar sem birtast allt í kringum okkur og hafa að öllum líkindum undirliggjandi áhrif á tilfinningar hversdagsins. Tíminn markar landslagið. Landslag er kort af fortíðinni, endurspeglun nútímans og framtíðar.  Það er kjarni viðhorfa í okkar lífi, við sjáum það út undan okkur, grundvöllinn að tilvist mannsins.

Martin Cox

Ísland er land sem liggur við heimskautsbaug, því hafa loftslagsbreytingar stórkostleg áhrif þar. Í kyrrð dalanna er undirliggjandi menningarleg umbylting þegar loftslagsbreytingar gera það að verkum að forn landnýtingarhefð sleppir tökunum.”

Martin dregst að viðfangsefnum þar sem menning og náttúra eiga sína snertifleti. Sjónræn áhrif tímans sem birtast á ákveðnum stað og það hvernig sú umbreyting á sér stað. Myndir hans bera tímans rás og nærveru sögunnar vitni. Verkefni Martin hefjast sem sjónræn athugun sem þróast í rannsóknir og síðar sýningar.

 

 

Nýjast