Arnar Björnsson, fréttamaður: „Hangikjötið á jóladag verður að vera að norðan“
Arnar Björnsson, fréttamaður á RÚV, er flestum landsmönnum kunnur af sjónvarpsskjánum. Arnar hefur starfað við fjölmiðlun í 44 ár og marga fjöruna sopið í þeim efnum. Hann er fæddur og uppalinn á Húsavík og er einn af stofnendum hins fornfræga Víkurblaðs. Arnar settist niður með blaðamanni í jólalegt spjall með húsvísku ívafi.
„Ég bjó á Húsavík alveg þangað til ég fór í háskóla í Reykjavík eitthvað um 1980, og flutti svo eiginlega alfarið þaðan þegar ég fór að vinna á RÚV á Akureyri 1986. Ég var að vinna á Húsavík á sumrin, gaf meðal annars út blaðið Víkurblaðið og er einn af stofnendum þess,“ segir Arnar.
Víkurblaðið var stofnað 1979 en hefur runnið sitt skeið. Blaðið var á tímabili líka gefið út á Akureyri. „Þetta blað var lengi vel gefið út og þar var mikill snillingur ritstjóri, Jóhannes Sigurðarson einn af stofnendunum, en við vorum þrír sem stofnuðum þetta blað. Hann hélt áfram útgáfu í mörg ár,“ segir Arnar.
Arnar varð stúdent árið 1979 úr Menntaskólanum á Akureyri og stofnuðu félagarnir þrír Víkurblaðið um haustið sama ár. Sem gerir það að verkum að hann hefur verið starfandi við fjölmiðla í heil 44 ár. Hann fór suður til Reykjavíkur í háskóla en starfaði í sumarfríunum sínum á Víkurblaðinu á Húsavík og eftir að hann fluttist alfarið til Reykjavíkur reyndi hann þó að eyða fríum sínum að mestu á Húsavík.
Arnar við ritvélina í árdaga
Jólahefðirnar breytast
Aðspurður hvort hann haldi í einhverjar sérstakar hefðir þegar hann heldur jólin þá segir hann að hefðirnar sínar séu heldur klassískar í grunninn. „Ein er að taka laufabrauð og svona, sem er nú mjög góður siður á Norðurlandi. Húsvíkingar eru duglegir að gera laufabrauð og það er alltaf stemning í kringum það. En það er svona með þessar jólahefðir, þær einhvern veginn breytast með hverju árinu, þetta er orðið svo alþjóðlegt og ég á það til að vera úti í útlöndum um jólin. Eitthvað sem maður gat ekki hugsað sér sem lítill pjakkur,“ segir Arnar og brosir.
„Fairytales“ of New York og loftkökur
Þegar talið berst að því hvert sé uppáhaldsjólalagið hans, þá sat hann ekki lengi á svarinu. „Ætli það sé nú ekki bara vegna þess að Shane Macgowan, söngvari The Pogues, var að deyja núna nýverið, að það sé Fairytales of New York. Sem er alveg geggjað. Þó það sé ekki jólalag, þá er það alveg frábært lag, og kemur mér alltaf í jólafíling,“ segir Arnar.
Aðspurður segir hann síðan að uppáhaldssmákökusort hans fyrir jólin séu loftkökur. „Ég er rosalega lélegur smákökumaður og er það eiginlega búið að vera vandamál mitt í mörg ár. Ég borðaði alltaf loftkökur fyrr sem móðir mín bjó til. Það voru einhverjar svona sykurkökur sem maður úðaði í sig og varð fullur af orku á eftir, stalst í baukinn þegar maður komst í hann. Það er svona uppáhaldssmákökutegundin mín, loftkökur,“ segir Arnar glaður í bragði. „Í minningunni er þetta ofboðslega flott og gott bakkelsi,“ bætir hann við.
Rjúpur í uppáhaldi
„Í mörg, mörg ár borðaði ég náttúrulega rjúpur. Maður ólst upp við það á Húsavík að það voru svo margir sem fóru til fjalla og skutu rjúpur á jólum. Þetta var alveg æðislega góður matur. Svo reyndi maður að halda í þessa hefð lengi eftir að maður kom suður, að ná sér í rjúpur, en svo hefur orðið aðeins breyting á. Því það er orðið verra að fá þær. Þannig að maður borðar þá bara eitthvað gott í staðinn.
En svo borðum við náttúrulega alltaf hangikjötið á jóladag og það verður að vera að norðan,“ segir Arnar og heldur áfram. „Maður borðar eitthvað heitt og gott á aðfangadag. Undanfarin ár höfum við verið rjúpur en svo hefur verið hamborgarhryggur líka, og svo annað gúmmelaði, kalkúnn og eitthvað.“
Jólagírinn dregur fram jólaskapið
Hvað jólaskapið varðar segir Arnar að það komi þegar líður á stemninguna sem fylgir jólunum. „Jólaskapið kemur bara svona einhvern veginn þegar nær dregur jólum. Þegar maður finnur að menn eru farnir að komast í jólagírinn og maður sér jólaskreytingar. Þegar ég fer niður í bæ hérna í Reykjavík og sé stemninguna, þá kemst ég í fínan jólagír. En ég er frekar seinn til með að fara í jólagírinn, mér finnst bara best að gera það bara svona rétt þegar kemur að jólunum. Þá kemur andinn yfir mann, jólaandinn,“ segir Arnar sposkur.
Sælla er að gefa en þiggja
Þegar talið berst að jólagjöfum, hefur fjölskyldan látið gott af sér leiða í gegnum tíðina „Það er orðið svo mikið vesen að gefa jólagjafir, því það eiga allir allt og kaupa allt, þú skilur. Kannski er besta jólagjöfin sem við gáfum að við ákváðum fjölskyldan að finna fólk sem ætti erfitt. Við gáfum konu og tveimur unglingum hennar jólagjafir. Það voru lítil efni á heimilinu, og ég held að það sé besta jólagjöfin sem að ég man eftir, alla vegna í seinni tíð.“
Það að gleðja einhverja aðra frekar en að reyna að gleðja einhverja í kringum mann sem eigi allt af öllu segir Arnar að sé frábær jólagjöf. „Fólk er að drukkna í þessu kaupæði öllu saman og maður ætti frekar að hugsa til þeirra sem eiga bágt og líður ekkert alltof vel.“
En þegar Arnar er inntur eftir því hvaða gjöf standi upp úr sem hann hefur sjálfur fengið, þykir honum erfitt að svara. „Þetta er alltof erfið spurning. Ég er mikill bókamaður og fæ mjög oft, fæ eiginlega alltaf, bækur í jólagjöf. Það finnst mér rosalega gott, að liggja með bók og fylgjast með. Mér finnst líka æðislegt að sitja með góða bók í hönd eða upp í rúmi að lesa. Það finnst mér alveg geggjað.“
Arnar ber mikinn hlýhug til gamla bæjarins síns og segir að það sé gaman að sjá hann blómstra. Að lokum óskar hann þess að allir eigi gleðileg jól, ekki síst Húsvíkingar að sjálfsögðu.