Setið við vefstólinn
Í huga þess sem þetta pikkar inn er eitthvað notalegt við þá tilhugsun að sitja við vefstól og skapa eitthvað sem gleðja mun þá sem nota. Það er þó jafn víst að pikkara skortir alla hæfileika í verkið en það má láta sig dreyma.
Á heimasíðu VMA má lesa þessa frásögn:
Á fata- og textíllínu listnáms- og hönnunarbrautar kennir Borghildur Ína Sölvadóttir nemendum vefnað. Tveir áfangar eru í boði, annars vegar grunnáfangi og hins vegar framhaldsáfangi þar sem byggt er ofan á grunninn og nemendur spreyta sig í að vefa ýmsa fallega hluti.
Þegar litið var inn í tíma í vefstofunni var Borghildur Ína að kenna sjö nemendum í framhaldsáfanga. Þeir voru að setja upp vefstólinn, koma öllum þráðum fyrir á sinn stað áður en hægt er að hefjast handa við sjálfan vefnaðinn. Það er með þetta eins og margt annað að undirbúningurinn verður að vera nákvæmur og góður, annars er hætt við að eftirleikurinn, sjálfur vefnaðurinn, verði þyrnum stráður. Nemendur voru langt komnir með undirbúninginn til þess að geta hafist handa við að vefa. Valið stóð um að vefa trefla eða barnateppi. Síðan hefjast nemendur handa og hyggjast ljúka verkefnum sínum á þeim tveimur kennsluvikum sem eftir eru af önninni.
Í áfanganum hafa nemendur fengið innsýn í hönnun á ólíkum mynstrum með því að nota forritið WeavePoint. Þeir völdu litina í vefstykkin sín og síðan var sest við stólinn og byrjað að þræða Tencel garn sem er með glansáferð, búið til úr trjákvoðu og er umhverfisvænt. Borghildur Ína segist leggja áherslu á umhverfisþáttinn í kennslunni enda full ástæða til eigi sér stað mikil umhverfissóun í textíliðnaðinum í heiminum.
Rétt er að benda á að smelli fólk að rauðlitaðan texta í þessari frétt færist þið yfir i myndaveislu frá kennslustund hjá Borghildi Ínu.