Emiliana Torrini og Ásgeir Trausti spila í Hofi á Airwaves-hátíðinni
Línur eru farnar að skýrast hvaða tónlistarmenn muni koma fram á Akureyri á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni. Emiliana Torrini og Ásgeir Trausti eru á meðal þeirra en tónleikar beggja fara fram í Hofi. Hátíðin fer fram dagana 1.-5. nóvember.
Auk þess er staðfest að Mura Masa (UK), Benjamin Clementine (UK), Arab Strap (SCO), Emmsje Gauti, GKR, Mammút, Stefflon Don (UK), JFDR, Alexander Jarl, Xylouris White (GR/AU), Hildur, Daniel OG (UK), KÁ-AKÁ, Sturla Atlas, Cyber og aYia komi fram á Akureyri.
Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves, segir að enn eigi eftir að tilkynna 5-8 listamenn til viðbótar.
Tónleikar Emiliönu Torrini fara fram á fimmtudeginum en tónleikar Ásgeirs Trausta á föstudeginum í Hofi. Einnig verða tónleikar á Græna hattinum á Airwaves-hátíðinni og stefnt er að því að spilað verði á þriðja staðnum.
Þetta er í fyrsta sinn sem Iceland Airwaves tónlistarhátíðin verður haldin á Akureyri auk Reykjavíkur. Að venju mun hátíðin fara fram á 13 tónleikastöðum í miðbæ Reykjavíkur. Icelandair, stofnaðili hátíðarinnar, í samstarfi við Flugfélag Íslands mun bjóða upp á ferðapakka fyrir erlenda gesti sem geta þannig byrjað dvöl sína á Akureyri og endað í Reykjavík. Flogið verður beint frá Keflavík til Akureyrar.
Boðið er upp á þrjár gerðir af miðum; almennur miði – eitt armband sem gildir á alla viðburði hátíðarinnar, Akureyrarmiði – eitt armband sem gildir á alla viðburði hátíðarinnar á Akureyri og Akureyri plús viðbót – eitt armband sem gildir á alla viðburði hátíðarinnar á Akureyri og alla viðburði hátíðarinnar í Reykjavík dagana 4. og 5. nóvember.