Elskar að fá jólakort
Leikkonan, handritshöfundurinn og framleiðandinn Nanna Kristín Magnúsdóttir hefur í nógu að snúast þessa dagana þar sem hún undirbýr næsta leikstjóraverkefni ásamt því að vera að skrifa. Nanna flutti sem barn í borgina en hún finnur enn sterka tengingu við Akureyri.
Er ennþá smá Akureyringur í þér?
„Jahá, svo sannarlega. Ég er fædd á Akureyri, bjó þar fyrstu árin og eyddi flestum sumrum þar. Móðurfjölskyldan mín er að norðan og taugin er sterk. Sigrún móðuramma mín fæddist í Ólafsvík en bjó á Akureyri meirihluta ævinnar. Við amma vorum mjög tengdar, alveg frá því að ég var lítil stelpa. Ömmukleinur voru bestar í heimi“.
Ætlaði að verða barnalæknir
Nanna Kristín leikstýrði, lék og framleiddi þættina Pabbahelgar og nú nýlega leikstýrði hún þáttunum Ráðherrann. Það var þó ekki alltaf draumurinn að vinna við kvikmynda- og þáttagerð.
„Sem barn stefndi ég að því að verða læknir. Ég hélt lengi í það plan sem unglingur og langaði að verða barnalæknir en svo varð leiklistaráhuginn sterkari sem tók alveg yfir í menntaskóla. Eftir að hafa unnið sem leikkona í tæp tíu ár, bætti ég við mig námi í kvikmyndagerð og í dag er starf mitt mjög fjölbreytt,“ segir hún.
„Talandi um fjölbreytileika, er ég núna bæði að skrifa og undirbúa næsta leikstjórnarverkefni. Skrifin mín eru bæði leikið efni fyrir fullorðna og síðan teiknimyndir fyrir börn. Næsta leikstjórnarverkefni mitt er söng- og dansmyndin Abbababb sem verður skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Sagan er byggð á samnefndu leikriti og söngvum eftir Dr. Gunna. Í því verkefni er tenging norður þar sem Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson er tónlistarstjóri kvikmyndarinnar og útsetur lög Dr. Gunna en Sinfonia Nord flytur frumsömdu tónlistina.“
Framundan hjá Nönnu er svo heilmikið skipulag heima fyrir og í vinnunni, „þannig að tíminn yfir hátíðirnar verði afslappaðar og ánægjulegar fyrir alla. Alheimsfaraldur hefur áhrif á allt og alla – skiljanlega,“ segir hún.
Jólahefðir og uppáhalds jólakökuuppskriftin
„Uppáhalds jólasmákökurnar mínar eru svokallaðar sýrópskökur sem amma Sigrún bakaði alltaf fyrir hátíðirnar. Ég hef sjálf reynt að baka þær en þær heppnast aldrei jafn vel og hjá henni. En jólaísinn hennar kemur mjög vel út hjá mér, þó ég segi sjálf frá. Bæði fullorðnir og börn eru sólgnir í hann.“
Það hefur ekki verið venjan hjá Nönnu að fara í aðventumessur en hana langar mikið til að taka upp þá hefð. „Sem barn fór ég í sunnudagaskólann í Akureyrarkirkju og báðar ömmur mínar kenndu mér bænir og guðsorð.“
Nanna segir að þær jólahefðir sem haldist alltaf sé að hlusta á messuna og setjast að kvöldmatarborðinu á slaginu klukkan sex. „Ég man að sem lítil stelpa var þetta biðin endalausa og ég samdi við mömmu um að fá að opna einn pakka fyrir klukkan sex. Hugsunin var að gjöfin ætti þá að stytta mér stundir. Tíminn nýttist ekki síður vel í að spá og spekúlera hvaða pakki hentaði best og mjúku pakkarnir urðu alveg út undan sem „fyrsti pakki fyrir kl sex“. Síðan var siður á heimilinu að lesa jólakortin á jóladagsmorgun. Þeim hefur nú eitthvað fækkað undanfarin ár, enda hafa facebook-kveðjur leyst þau af hólmi. En ég elska að fá jólakort og sendi þau sjálf.“
Að lokum sendir Nanna Kristín Akureyringum hlýjar kveðjur „Gleðileg jól, elsku Akureyringar og njótið hátíðarinnar vel í faðmi fjölskyldunnar.“
JÓLAÍS ÖMMU SIGRÚNAR:
1/2 lítri rjómi
3 stk. eggjarauður
90 g sykur
40 g vanillusykur
Sletta af vanilludropum
Má bragðbæta með sérrí eða súkkulaðispænum, hvað sem hver kýs.
Þeytt vel – rjóminn annars vegar og egg plús sykur hins vegar. Síðan blandað varlega saman.
Ég hef síðan karamellusósu með og fersk ber, helst hindber. Karamellusósuna geri ég úr bræddum, súkkulaðihúðuðum vindlum eða þeirri karamellu sem er til. Ég bæti síðan rjóma saman við sem og suðusúkkulaði. Ég ber sósuna fram heita.
Greinin birtist fyrst í Jólablaði Vikublaðsins sem unnið var af nemendum í fjölmiðlafræði við HA