Ellefu ný tónverk frumflutt á vel heppnuðum tónleikum
Velheppnaðir tónleikar Upptaktsins, tónsköpunarverðlauna barna og ungmenna, fóru fram í Menningarhúsinu Hofi í gær, sunnudaginn 24. apríl. Þar voru ellefu verk 13 ungra tónskálda á aldrinum 11-15 ára frá Akureyri, Eyjafjarðarsveit og Hrísey flutt af atvinnuhljóðfæraleikurum. Verkin ellefu voru valin úr innsendum tónlistarhugmyndum, en börn í 5. -10. bekk í skólum á Norðurlandi eystra gátu tekið þátt í verkefninu. Verkin í ár voru afar fjölbreytt, en þar mátti heyra nýklassísk verk, popp-,rokk-, söngleikja-, jazz- og tölvuleikjalag. Lokapunktur Upptaktsins er svo þegar lögin ellefu verða gefin út á Youtube.
Kristín Sóley Björnsdóttir, verkefnastjóri Upptaktins og viðburðastjóri Menningarhússins Hofs segir tónleikana hafa tekist afar vel.
„Þetta var sannkölluð uppskeruhátíð eftir sköpunarvinnu ungu tónskáldanna, útsetjara, tónlistarstjóra og hljóðfæraleikara. Það er ekki á hverjum degi sem ellefu ný tónverk eru samin af ungu fólki, útsett af fagfólki og flutt af atvinnuhljóðfæraleikurum við bestu aðstæður. Við erum svo stolt af þessum ungu hæfaleikaríku krökkum, þau eru sannarlega kröftug fræ sem munu með áframhaldandi vökvun blómstra í samfélaginu okkar. Þvílíkt ríkidæmi – framtíðin er sannarlega þeirra og ég efast ekki um að við fáum að njóta blómanna sem út spretta á komandi árum með þeim og enn fleiri þátttakendum í Upptaktinum. “ segir Kristín Sóley
Um útsetningu verkanna fyrir hljómsveit sáu þau Kristján Edelstein og Greta Salóme, en Greta er einnig tónlistarstjóri Upptaktsins.