„Eldhúsið er ævintýraheimur“

„Matur er menning ekki satt? Eldhúsið er ævintýraheimur, það eina sem þú þarft er hráefnið og áhuga á að prufa eitthvað nýtt,“ segir Vaiva Straukaité sem hefur umsjón með matarkrók vikunnar. „Mér finnst gaman að dansa í kringum pottana með uppáhaldseldhústólin mín, saxa,

hræra, sjóða, baka og gleðja fjölskylduna mína og vinafólk. Hér ætla ég að gefa ykkur smá innsýn í litháenska matargerð. Matarmenningin í mínu heimalandi er rík af góðum súpuuppskriftum, kartöfluréttum og salötum ásamt sínum hefðbundna litháenska bakstri. Það er ótrúlegt hvað er hægt að töfra fram með réttu hráefni sem vel á minnst er auðvelt að nálgast hér á landi.“

 

Kartöflubaka með beikoni

Uppskrift fyrir 6

2 kg kartöflur

200 g beikon

1 laukur

2 dl mjólk

1 egg

pipar og salt eftir smekk

5 msk. olía til steikingar

 

Skrælið kartöflur og rífið þær niður með rifjárni eða í matvinnsluvél. Saxið

beikon og lauk í smá bita og steikið á pönnu þar til það verður fallega brúnt. Blandið rifnu kartöflunum vel

saman við eggið ásamt mjólkinni, steiktu beikoni og lauk. Bætið við salti og pipar eftir smekk. Hellið svo

blöndunni yfir í form þannig að blandan verði 4 cm þykk og bakið við 175°C í u.þ.b. 1 klukkutíma og hækkið

svo ofninn í 200°C og bakið í um 35 mín til viðbótar eða þar til kartöflubakan fær fallega skorpu. Bakan er góð sem aðalréttur og sem meðlæti með kjötrétti. Það má sleppa beikoni og nota kjúkling eða annað kjöt í staðinn. Það er líka gott að hafa bökuna sem grænmetisrétt og hún er fullkomin með sýrðum rjóma eða sveppasósu.

 

Sveppasósa

1 askja ferskir sveppir

1 stk laukur

200 g sýrður rjómi

2 dl rjómi

smá kjöt- eða grænmetiskraftur

salt og pipar eftir smekk

5 msk. olía til steikingar

 

Saxið sveppina og lauk í smá bita og steikið á pönnu þar til það verður fallega brúnt. Bætið svo sýrðum rjóma og rjóma ásamt salti, pipar og kjöt eða grænmetiskrafti eftir smekk. Hrærið öllu saman og takið af hellunni áður en sósan er farin að sjóða. Sósan er góð með ýmsum kartöflu- og pastaréttum.

 

Ástarpungar úr skyri

30-35 stk.

500 g óhrært skyr

4 egg

150 g sykur

8 msk. hveiti

1 msk. vanilludropar

5 msk. mjólk

1 tsk. natron

feiti til djúpsteikingar

flórsykur til skreytingar

 

Þeytið egg og sykur vel saman. Blandið óhrærðu skyri, mjólk og vanilludropum saman í sér skál og

vinnið þar til það er laust við kekki. Blandið öllu saman og bætið afganginum af hráefnunum út í og hnoðið deigið þar til það hefur blandast vel. Búið til 2 cm þykkar kúlur og djúpsteikið eins og venjulegar kleinur eða

ástarpunga. Kælið og sigtið flórsykur yfir.

 

Gero apetito!

Nýjast