„Ég nýt þess að prófa mig áfram með mismunandi hráefni í hæsta gæðaflokki“
Dorian Lesman er pólskur kokkur sem starfar á Fosshótel Húsavík. Auk þess rekur hann veisluþjónustu ásamt Martin Varga eiganda gistiheimilisins Tungulendingar á Tjörnesi.
„Ég er búinn að vinna í eldhúsinu á Fosshótel Húsavík frá því ég kom fyrst til Húsavíkur fyrir fimm árum síðan. Ég byrjaði í uppvaskinu en var fljótur að vinna mig upp í matargerðina enda hef mjög gaman af því að elda. Svo hef ég verið að taka ýmis námskeið á hverju ári, m.a. í sushigerð,“ segir Dorian í samtali við Vikublaðið.
Hann segir að matarvenjur Íslendinga séu mjög frábrugðnar því sem hann átti að venjast í heimalandinu. „Já klárlega, það er eiginlega ekki hægt að bera þetta saman,“ segir hann og bendir á að á jóladag sé yfirleitt á borðum 12 rétta hlaðborð og mikið af fiskréttum. „Það er þannig á flestum heimilum.
Dorian brennur helst fyrir sushigerð og fór í samstaf með téðum Martin í tengslum við það. „Martin fann mig eftir að ég hafði verið að laga sushi á Húsavík í nokkur skipti. Við hófum samstarf og byrjuðum annars vegar að útbúa sushi takeaway þar sem fólk pantaði fyrir fram og fékk afhent á föstudegi eða laugardegi. Svo fórum við að halda sushi hlaðborð í Tungulendingu fyrir hópa. Það hefur gengið mjög vel og við erum búnir að vera með a.m.k. eitt slíkt hlaðborð á mánuði í sumar,“ útskýrir Dorian en vel hefur verið látið af sushi veislum þeirra félaga sem fara fram í Tungulendingu.
„Sushigerðin hefur gefið mér tækifæri til að gera það sem mig langar til í eldhúsinu og ég nýt þess sérstaklega að prófa mig áfram með mismunandi hráefni í hæsta gæðaflokki,“ segir Dorian og bætir við að hann finni fyrir mestu sjálfsöryggi í sushigerðinni. Hún sé hans sérgrein.
„Ég byrjaði að læra sushigerð þegar ég fór til póllands til að vinna á veitingahúsi fyrir nokkrum árum. Svo kom ég aftur til Húsavíkur og hef verið að gera sushi fyrir alla Húsavíkinga síðan,“ segir þessi geðþekki matreiðslumaður en hann deilir með okkur uppskriftum að dýrindis sushi.
Laxatartar
200g ferskur lax – skorinn í þunnar sneiðar.
120g elduð sushi hrísgrón
1 teskeið sesamolía
1 matskeið soja sósa
1 teskeið oa Sriracha
2 matskeiðar af fínt söxuðum graslauk
2 matskeiðar af fínt söxuðum baðlauk
2 matskeiðar af fínt söxuðum skalottlauk
1 matskeið af sítrónuberki
2 matskeiðar steikt hvítt sesam
Svartur pipar
Blandist saman og leggið ofan á hrísgrjónin.
Laxa nigiri
20g elduð sushi hrísgrón fyrir hvern nigiri
1 Þunn laxasneið á hvert nigiri
1 dropa af wasabi undir hverja laxasneið
Sushi rúlla:
80g soðin sushi hrísgrjón
1 avocado
60g af laxabitum
1 matskeið majónes inn í rúlluna
Skreyting:
Wasabi
Engifer
Sojasósa
sauce
Og muna eftir prjónunum.