„Ég hlustaði á þetta síðar og þá var þetta eins og ég hélt, bara negla“

Einar Óli Ólafsson, tónlistarmaður er afkastamikill lagasmiður. Mynd/epe
Einar Óli Ólafsson, tónlistarmaður er afkastamikill lagasmiður. Mynd/epe

Einar Óli Ólafsson, tónlistarmaður frá Húsavík tók þátt í Idol á Stöð 2 sem nú stendur yfir. Hann komst í 18 manna úrslit en var sendur heim fyrir beinu útsendingarnar. Óhætt er að segja að það hafi valdi mikilli undrun og hneykslan jafnvel og var dómurum keppninnar sendur tónninn á samfélagsmiðlum. Stóð valið á milli Einars Óla og Birgis Arnar þegar eitt pláss var eftir en það var sá síðarnefndi sem hlaut náð fyrir eyrum dómnefndar, þrátt fyrir að hafa átt slakasta flutninginn þann daginn að mati sömu dómnefndar.  

Einar Óli lætur ekki mótlætið slá sig út af laginu og hefur sett af stað skemmtilega keppni á Instagram síðu sinni sem hann kallar sitt eigið Idol. Einar Óli segir vegferð sinni í Idol og litlu krúttlegu keppninni sem reyndar er orðin risastór, í samtali við Vikublaðið.

 Hörð viðbrögð aðdáenda

Einar Óli

Einar Óli segist vera sáttur við að hafa tekið þá ákvörðun að taka þátt í Idol-söngvakeppninni og sé þakklátur fyrri tækifærið. „Ég er alla vega sáttur við sjálfan mig og allt sem ég gerði í keppninni en auðvitað hefði maður viljað fara lengra í þessu,“ segir Einar Óli og bætir við að engu að síður hafi hans aðalsmarkmið verið náð en það var að vekja athygli á sinni eigin tónlist.

Það eru engar ýkjur að ákvörðun dómaranna um að senda Einar Óla heim áður en neinar útsendingar hæfust hafi gert allt vitlaust á samfélagsmiðlum. Ákvörðun dómaranna var harðlega gagnrýnd og var gagnrýnin á köflum afar harkaleg. Einar Óli gaf í kjölfarið út yfirlýsingu þar sem hann þakkaði stuðninginn en bað fylgjendur sína um að sína stillingu í gagnrýni sinni.

„Mér fannst þetta mjög skemmtilegt og var nokkuð viss um að ég væri að fara áfram, fannst ég hafa gert nóg til að verðskulda það. En ég er ánægður með að ég hafi ekki verið einn um þá skoðun miðað við viðbrögðin,“ segir hann og bætir við að hann hafi efast um að flutningur sinn hafi verið jafngóður og hann fyrst hélt þegar úrslitin lágu ljós fyrir.  

 Efaðist um eigin flutning

„Ég gerði það, ekki um sjálfan mig en frammistöðuna,“ segir Einar Óli en viðurkennir að hann muni lítið eftir flutningi sínum. „Ég man mjög takmarkað eftir flutningnum. Það er gert í því að búa til svona stressaðstæður fyrir mann. T.d. var mér meinað að prófa flygilinn sem ég notaði. Fyrsta skipti sem ég snerti hann var þegar ég kom fram og flutti lagið mitt. Það er alls konar svona sem kom mér pínu á óvart. Þegar ég var búinn að spila þá fannst mér flutningurinn hafa verið góður en maður man bara svo takmarkað. Þetta er svolítið í móðu. Svo fór ég aðeins að efast um flutninginn eftir að ég komst ekki áfram. En efaðist aldrei um sjálfan mig,“ útskýrir Einar Óli.

„Ég hlustaði á þetta síðar og þá var þetta eins og ég hélt, bara negla.“

 Þakklátur fyrir viðbrögðin

Einar Óli segist hafa gengið sáttur frá borði úr keppninni og finni ekki fyrir nokkurri eftirsjá.

„Nei alls ekki, sérstaklega ekki eftir viðbrögðin sem maður hefur fengið. Ég fór inn í þetta með það að markmiði að koma minni tónlist á framfæri og ég er að fá það núna. Það er ekki spurning. Ég er að fá mikla athygli og nýja fylgjendur. Ég veit ekki hvað hefði gerst ef ég hefði farið lengra, kannski fór þetta bara eins og þetta átti að fara,“ segir Einar Óli en hann flutti frumsamið lag í keppninni.

„Ég ætlaði fyrst að gera það í prufu tvö en síðan kom í ljós að hún yrði án undirleiks. Þá fannst mér ekki vera vit í því að vera með frumsamið í þeirri umferð. Svo var mér tjáð þegar ég datt út að það var annað hvort að taka frumsamið þarna  eða ekki því það átti að banna það í beinu útsendingunum.“

Snjóbolti sem rúllar

Einar Óli

Eins og áður var getið hefur Einar Óli nú farið af stað með sína eigin keppni með sömu þemum og í Idol keppninni á Stöð 2 og mun hún standa yfir samhliða Idolinu.

„Maður var náttúrlega kominn með plan fyrir beinu útsendingarnar og búinn að vera æfa fullt af lögum sem ég ætlaði að flytja í keppninni en úr því að ég datt út þá ætlaði ég bara samt að flytja þessi lög. Vera aðeins með í þessu Idoli nema gera það á mínum miðli,“ segir Einar Óli léttur í bragði.

„Svo hefur þetta þróast út í það að ég er að fá fleira fólk með mér í þetta og gera þetta að einhvers konar leik. Svo hefur þetta bara orðið eins og lítill snjóbolti sem er verður að einhverri risastórri kúlu núna.“

Fyrsta vikan var í síðustu viku og var þemað ástarlög líkt og í Idol og fór þátttakan fram úr björtustu vonum Einars Óla.  „Það var mjög lítill fyrirvari en það voru engu að síður 22 manns sem tóku þátt og sendu mér lög. Fullt af öðru fólki sem sendi inn lög sem komu bara aðeins of seint. Ég reikna með því að það verði enn þá fleiri sem verða með næst.“ Segir hann og bætir við að það opni fyrir að senda inn lög á miðvikudögum. Síðan verður hann með ýmsa aðila sem velja uppáhalds lagið á föstudegi. Fyrstu vikuna var það engin önnur en söngdífan Ágústa Eva sem settist í dómarasætið. Þessa vikuna var það Björn Grétar Baldursson sem heldur úti Instagramsðunni Pabbalífið sem valdi sigurvegara vikunnar. Það var Ruth Ragnarsdóttir sem bar sigur úr bítum.

Gríðarleg viðbrögð

Einar Óli segir að viðbrögðin hafi verið mjög góð og komið sér skemmtilega á óvart en þetta verkefni hafi sannarlega vaxið meira en hann átti von á. „Það er mikil skipulagning í kringum þetta. Miklu meira en ég bjóst við í byrjun. Ég er kominn með samstarfsaðila sem gefa vinninga, þannig að það er kominn smá alvöru bragur á þetta,“ segir hann en Blush, 17 sortir Sylvíu Haukdal, Systur og makar og undirfataverslunin Sazzy.is hafa staðfestþátttöku sína þegar þetta er ritað og gefa vinninga.  

„Þetta átti að vera bara lítið og krúttlegt fyrst en það eru svo margir sem hafa sýnt þessu áhuga og það hrúgast inn fylgjendur hjá mér núna. Langflestir eru bara að koma inn til að fylgjast með, hlusta og horfa, en svo eru kannski 10% sem eru að taka þátt í þessu og senda þá inn lög,“ segir Einar Óli.

Þrátt fyrir annir í nýju óvæntu verkefni segist Einar Óli þó alltaf gefa sér tíma í að vinna að nýju efni. „Ég er að vinna í nokkrum lögum, og er alltaf að semja. Það er ekki langt í að ég gefi út 2-3 lög sem eru í vinnslu, bara beint á streymisveitur svo stefni ég á tónleika á næstu mánuðum í Reykjavík,“ segir Einar Óli að lokum.

Smelli hér til að fylgja Einari Óla, eða iLo á Instagram

 

Nýjast