„Ég fann strax löngun til að starfa vel fyrir þetta sveitarfélag“
Katrín Sigurjónsdóttir hóf störf sem sveitarstjóri Norðurþings þann 3. ágúst sl. Hún hefur nýtt tímann vel þessar vikur til að setja sig inn í starfið og kynnast sveitarfélaginu. Vikublaðið tók hana tali á dögunum og ræddi við hana um starfið, væntingar og áskoranir.
Katrín var í sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar frá 1994- 2004, og var svo aftur kjörin fulltrúi 2018 ásamt því að vera sveitarstjóri síðustu fjögur árin. „Það gaf mér gríðarlega reynslu í opinberri stjórnsýslu. Ég kem því ekki alveg blaut á bak við eyrun en það tekur alltaf tíma að læra á nýtt samfélag og kynnast nýju stjórnkerfi þannig að ég þarf að gefa mér tíma svona í byrjun til þess.
Þakklát fyrir hlýjar móttökur
„Mér leist strax vel á mig þegar ég kom fyrst í Norðurþing í þessum erindagjörðum. Ég hef náttúrlega mjög oft komið til Húsavíkur og farið hér austur um sveitir. Keyrt mikið um þetta landssvæði en mér fannst um leið og ég fór að hugsa um að starfa að málefnum þessa sveitarfélags þetta vera mjög spennandi verkefni. Það eru gríðarlega mikil tækifæri sem liggja hér í atvinnu uppbygginu og uppbyggingu samfélagsins. Þar liggur líka mitt áhugasvið þannig að ég fann strax löngun til að starfa vel fyrir þetta sveitarfélag,“ segir Katrín og bætir við að hún hafi fengið mjög góðar móttökur af íbúum.
„Frá því að ég kom hingað og flutti sem var bara núna um mánaðamótin, þá hef ég fundið mjög góðan anda í samfélaginu. Fólk er hlýtt og tekur vel á móti mér. Ég finn mig strax heimakomna.“
Aðkallandi verkefni
Katrín dregur ekkert úr því að það sé krefjandi verkefni að vera sveitarstjóri í Norðurþingi og að það séu stór verkefni sem eru aðkallandi og nefnir fyrst atvinnuuppbyggingu á Bakka. „Sveitarstjórnin hefur verið að vinna að hugmyndum um frekari uppbygginu á Bakka. Það er verkefni sem þarf að ýta vel áfram og vanda sig mjög við það svo að markmiðum sveitarfélagsins sé náð. Að þetta verði grænir kostir, atvinnuskapandi og samfélagslega hagkvæm verkefni,“ segir hún og bætir við að uppbygging á Bakka kalli á frekari uppbyggingu íbúðahúsnæðis í sveitarfélaginu öllu.
„Það er sama sagan, hvert sem þú lítur í sveitarfélaginu. Ég er búin að fara bæði á Kópasker og Raufarhöfn og þar er húsnæðisskortur eins og alls staðar. Það er slæmt að það skorti húsnæði þegar fólk vill flytja í sveitarfélagið, sérstakleg í þorpin sem hafa átt undir högg að sækja hvað varðar búsetu. Svo vill fólk koma en þá er ekki til húsnæði. Það er áskorun fyrir sveitarstjórn að bregðast við því,“ segir Katrín.
„Það er dýrara að byggja eftir því sem þú ert komin lengra frá aðföngunum. Flutningskostnaður og allt slíkt er dýrara. Svo er líka skortur á iðnaðarfólki til að vinna að uppbygginguni. Það er líka að hamla verkefnum, það er svo mikil pressa á iðnaðarmönnum. Ég veit að sveitarfélagið hefur verið fara í útboð á framkvæmdum og það hefur bara ekki fengist neinn til að bjóða í. Það er slæmt. En það ber líka vott um það að það sé mikið í gangi og mikil uppbygging.“
Langhlaup
Aðspurð hvernig hún sjái fyrir sér að verkefnið um græna iðngarða þróist á næstunni segir hún að það sé afar stórt verkefni og lokaskýrsla verkefnahóps verði kynnt á íbúafundi öðruhvoru megin við næstu mánaðamót. „Þetta er gríðarstórt verkefni til næstu áratuga ef það er horft á það alveg til loka. Ef það á að ganga alveg að fullu upp, þá kallar það örugglega á frekari hafnaframkvæmdir líka. Það ferreyndar mikið eftir því hvers konar iðnaður verður á svæðinu, hvort það krefjist aðfanga frá sjó eða útskipunar á fullunni vöru,“ útskýrir Katrín og lýsir yfir ánægju sinni með að stjórn Hafnarsjóðs hafi óskað eftir samþykki sveitarstjórnar á að farið verði í heildstæða hönnun á hafnaraðstöðu á Húsavík.
„Það þarf að horfa á þetta sem eina heild. Hafnarsvæðið eins og það er í dag er orðið mjög lestað. Það er oft sem það eru það mikil umsvif að það eru vandræði,“ segir Katrín og heldur áfram:
„Mér finnst mjög gott að hafnarstjórn sé farin að huga að þessu verkefni. Því fyrr sem við áttum okkur á framtíðarsýn fyrir hafnasvæðið þeim mun líklegra er að þetta komist til framkvæmda á einhverjum tíma. Uppbygging á hafnarsvæðinu kallar á aðkomu ríkisins og koma þarf verkefnum inn á samgönguáætlun, í biðröðina eftir fjármagni. Ég er mjög glöð með að þessi vinna sé fyrirhuguð, svo tekur einhvern tíma að átta sig á heildarmyndinni. Hvað er hafnsækin starfsemi; hvaða starfsemi þarf að vera alveg næst hafnarsvæðinu og hvers konar starfsemi getur verið lengra frá og svo framvegis.“
Bíða eftir uppfærðri kostnaðaráætlun frá ríkinu
Uppbygging nýs hjúkrunarheimilis brennur mjög á íbúum sveitarfélagsins en Katrín viðurkennir að hún eigi enn eftir að setja sig nægilega vel inn í málið. „Ég veit að það á eftir að ganga almennilega frá gagnvart ríkinu. Hvernig fjármögnun verður háttað og annað. Sveitarstjórn er með þetta á borði sínu núna. Allur uppbyggingarkostnaður hefur aukist mjög mikið vegna hækkunar á hrávöruverði og nauðsynlegt er að fá uppfærða kostnaðaráætlun um verkið“ segir hún og bætir við að mjög brýnt sé að þoka þessu máli áfram og fá endanlega mynd á það.
„Sveitarstjórnin er með það á borði sínu að ná þessu loka samtali við ríkið og svo er þetta auðvitað samstarfsverkefni með öðrum sveitarfélögum sem þarf að vera samstaða um. Þegar lokamyndinni er náð þurfa öll sveitarfélögin að átta sig á hvernig á að fjármagna verkefnið eins og lagt er upp með,“ útskýrir Katrín en eins og staðan er í dag er verið að bíða eftir uppfærðri kostnaðaráætlun frá Fjársýslu ríkisins. „Það er ekki fyrr en það liggur fyrir sem sveitarstjórn hefur gögnin í höndunum til að ákveða með framhaldið.“
Katrín segist vona að ekki þurfi að draga í land með uppbygginu hjúkrunarheimilisins þrátt fyrir að ljóst megi vera að kostnaður muni hækka umtalsvert.
„Klárlega þarf sveitarstjórn svo að leggjast yfir það með hvaða hætti hún getur farið í uppbygginguna og fjármagnað verkefnið,“ segir hún og bendir á að launahækkanir undanfarið dragi einnig úr framkvæmdagetu sveitarfélagsins. „Bilið sem sveitarfélagið hefur til að framkvæma, hefur minnkað. Reksturinn er farinn að taka mikið til sín og það er slæmt ef eitt verkefni er kannski að taka allt framkvæmdafé yfir langan tíma, því þá svelta aðrir innviðir á meðan. Þannig að það er mörg áskorunin sem bíður sveitarstjórnar, það er alveg klárt.“
Hefur komið sér vel fyrir
Katrín segist ekki vera feimin við þær áskoranir sem bíða hennar og kveðst vera búin að koma sér þokkalega fyrir á Húsavík ásamt Hauki Snorrasyni eiginmanni sínum. Við vorum svo heppin að fá hús sem við getum verið í á meðan við erum að átta okkur á húsnæðismarkaðnum. Við erum flutt og löngun okkar stendur til að kaupa eign hérna. Við erum að koma okkur fyrir, erum búin að fá okkur árskort í sund og sjóböðin og aðild að golfklúbbnum. Við erum bara á fullu við að aðlagast samfélaginu og eins og ég kom inn á í byrjun þá eru móttökurnar mjög góðar. Mér finnst gaman þegar fólk vindur sér að mér á götunni, kynnir sig og býður mig velkomna og spjallar stuttlega,“ segir sveitarstjórinn og ber austursvæðinu líka vel söguna.
„Við fórum á Kópasker og Raufarhöfn í síðustu viku. Þá hittum við fjölda fólks og ég ætla að fara aftur og vera vinnudag fyrir austan í vikunni. Ég stefni á að gera það reglulega til að ná samskiptum við íbúa alls staðar í sveitarfélaginu. Það er eiginlega allt í þessu sveitarfélagi viðkunnalegt og fallegt, fólk og náttúra. Svo hlakka ég til vetursins að fá að upplifa uppbygginguna í kringum skíðaiðkun, gönguskíðamenninguna sérstaklega,“ segir Katrín að lokum.