Efla konur í hjólreiðum
Akureyrardætur nefnist hópur hjólastelpna frá Norðurlandi sem hafa það að markmiði að hafa gaman, njóta og hjóla saman og efla þannig konur á Norðurlandi í hjólreiðum. Akureyrardætur urðu til fyrir rúmu ári síðan þegar 10 konur tóku þátt í Wow Cychlothon og hjóluðu hringinn í kringum landið.
Í upphafi árs, þegar ljóst var að hópurinn myndi ekki taka þátt í ár, var ákveðið að búa til hjólahóp fyrir stelpur á öllum aldri og halda þannig nafninu á lofti með það að markmiði að halda áfram að hjóla og hvetja fleiri stelpur til að bætast í hóp Akureyrardætra.
„Við höfum staðið fyrir nokkrum samhjólum núna í sumar en þá mæta konur og hjóla saman í mismunandi mörgum hópum allt, eftir getu og hraða,“ segir Þórdís Rósa Sigurðardóttir ein Akureyrardætra. „Hugsunin er að allir geti tekið þátt og hjólað á sínum forsendum. Hópnum er skipt upp í nokkra hópa og leiða hópastjórar hvern hóp fyrir sig.“ Þá sé markmið Akureyrardætra einnig að halda á lofti Stelpuhring Sportvers sem fór fram fyrst í fyrra og var skipulagður af Freydísi Hebu Konráðsdóttur og Hafdísi Sigurðardóttur, en þær tvær eru aðalforsprakkar Akureyrardætra og hafa staðið fyrir ýmsum hjólanámskeiðum hér á Akureyri undanfarin tvö ár.
53 konur tóku þátt í Stelpuhring Sportvers
Stelpuhringur Sportvers var haldinn í annað sinn þann 20. júní síðastliðinn í Eyjarfirði í samstarfi við Akureyrardætur og Hjólareiðafélag Akureyrar. Hjólaviðburðurinn er fyrst og fremst hugsaður sem hjólaskemmtun og markmiðið er að fá konur til að taka þátt í hjólaviðburðum sem þessum og skemmta sér saman, hvort sem ætlunin sé að keppa við aðrar konur, tímann eða sjálfa sig. Keppt er í tveimur aldursflokkum fyrir 49 ára og yngri og 49 og eldri. Hjólaður var innri Eyjafjarðarhringur, samtals 31.8 km hringur með 5,5 km malarkafla. Byrjað var að hjóla frá Brúnum og suður fjörðin og til baka og endað aftur á Brúnum. Í fyrra tóku 35 konur á öllum aldri þátt en í ár var bætt um betur og voru 53 konur sem mættu til leiks. Fyrir þá sem vilja slást í för með Akureyradætrum er hægt að fylgjast með hjólaferðum þeirra á Facebooksíðu hópsins.