„Eðlilegt og sjálfsagt að bæði gráta og brosa yfir steikinni“
Jólablað Vikudags er fylgiblað hins hefðbundna Vikudags. Vikudagur sjálfur er borinn í hús til áskrifenda og seldur í lausasölu eins og endranær en Jólablaðið fer í mun víðari dreifingu. Blaðið var, líkt og undanfarin ár, unnið af nemendum í námskeiðinu Prentmiðlun við Háskólann á Akureyri. Bragi V. Bergmann, hjá FREMRI Almannatengslum, bar ábyrgð á námskeiðinu að þessu sinni og þakkar nemendum sínum gjöfult samstarf og góð kynni. Nemendurnir sem komu að vinnslu blaðsins voru níu talsins, ýmist staðarnemar eða fjarnemar í HA. Átta þeirra eru í fjölmiðlanámi en einn í sálfræðinámi. Vikudagur.is mun birta greinar úr jólablaðinu yfir hátíðarnar.
„Eðlilegt og sjálfsagt að bæði gráta og brosa yfir steikinni“
– segir Hildur Eir Bolladóttir, sóknarprestur í Akureyrarkirkju
Nú hefur þú tekið aðeins öðruvísi nálgun á prestsstarfið en margir kollegar þínir og verið meira áberandi í bæjarlífinu hér á Akureyri og jafnvel á landsvísu, bæði í gegnum sjónvarpsþætti og pistlaskrif. Er þetta til marks um nýja tíma og jafnvel einhver kynslóðaskipti – eða er þetta bara þú að vera Hildur Eir?
„Ja, að hluta til er þetta bara ég með mína eðlislægu forvitni og tjáningarþörf en mest af öllu er þetta þó köllun mín til að vinna kirkjunni gagn og minna á Jesú eins oft og víða og hægt er. Svo er auðvitað misjafn hvað fólki finnst um útkomuna en það er allt í lagi því ég er bara einn verkamaður af mörgum í víngarði Guðs.“
Nú þegar tækninni hefur fleygt fram og aðgengi að efni og upplýsingum verður sífellt auðveldara – telur þú mikilvægt fyrir kirkjuna að fylgja straumnum og nútímavæðast að einhverju leyti eða er jafnvel enn mikilvægara nú en nokkurn tíma að viðhalda hefðum og venjum innan kirkjunnar?
„Ég tel mjög mikilvægt að kirkjan sé samstíga þjóðinni í því að nota nýjustu tækni sem eflir og útvíkkar samskipti. Kirkjan getur ekki beðið eftir því að fólk komi til hennar, hún verður að koma með sinn heilsueflandi boðskap þangað sem fólkið er, hvort sem það er á fb eða í sjónvarpinu, rétt eins og hún fer inn á dvalarheimili, sjúkrahús og fangelsi svo fátt eitt sé nefnt.“
Hvernig gengur kirkjunni að ná til unga fólksins í dag – sérð þú til dæmis einhvern mun á fermingarbörnum í dag og þegar þú varst að stíga þín fyrstu skref sem prestur?
„Stutta svarið er vel, vegna þess að öflugasta starf kirkjunnar í landinu er jú barna- og æskulýðsstarfið, það er fjöreggið. En hvort unga fólkinu finnist kirkjan alltaf áhugaverð eða skemmtileg er önnur spurning. Kannski er kirkjan bara eins og mamma og pabbi í hugum unglinga, alltaf svolítið að tuða og leiðbeina en samt svo ómissandi.“
Nú er prestsstarfið fjölbreytt og þið takið jafnan þátt í annars vegar gleðilegustu stundum fólks og hins vegar þeim allra sorglegustu. Getur ekki verið erfitt að skipta á milli hlutverka?
„Í rauninni ekki, með tímanum uppgötvar maður að það eru einmitt þessu skörpu skil milli gleði og sorgar sem gera gleðina dýpri og sorgina bærilegri.“
Hvað er annars ánægjulegast við prestsstarfið?
„Að eiga einlæg samskipti við alls konar fólk og sjá hvað trúin er mikil í raunmynd samfélagsins þótt ímyndin birti stundum annað.“
Nú er aðventan gengin í garð, er prestsstarfið öðruvísi á aðventunni en á öðrum tímum ársins?
„Í rauninni eru verkefnin þau sömu en það sem breytist er að í verkefnunum, bæði í sorginni og gleðinni, hefur maður jólaguðspjallið til að spegla aðstæður og líðan fólks og það er mjög magnað, þvílík saga um skilyrðislausa ást, seiglu, trúartraust, hugrekki, von og samkennd.“
Jólin eru hátíð ljóss og friðar en margir eiga um sárt að binda á að- ventunni, t.d. vegna ástvinamissis, saknaðar eða jafnvel fátæktar. Hvaða ráð getur þú gefið þeim sem kvíða jólunum?
„Jólaguðspjallið er sálgæsla út af fyrir sig. Ég ráðlegg fólki að halda jólin með sorginni, að hún fái að vera með þannig að það sé eðlilegt og sjálfsagt að bæði gráta og brosa yfir steikinni og orða söknuð um leið og sagt er gleðileg jól. Þannig verða jólin ekta og huggunarrík.“
En hvernig eru svo jólin hjá Hildi Eiri?
Fá sóknarbörnin allan þinn tíma eða gefst tími til að sinna fjölskyldu og hefðbundnu jólastússi? „Iss, ég er svo mikið dekurdýr á mínu heimili að maðurinn minn eldar og undirbýr og sér til þess að börnin okkar séu nærð á líkama og sál þótt mamma sé ekki heima. En í rauninni vinn ég ekkert meira en margur á jólum; ég hugsa að heilbrigðisstarfsfólk sé t.d. undir miklu meira álagi en ég. Svo er bara helgihaldið svo dýrðlegt á jólum að maður gleymir því að þetta sé einhver vinna.“
Guðrún Kristín Blöndal.