Draumaleikhúsið er nýtt leikfélag á Akureyri
Draumleikhúsið nefnist nýtt leikfélag á Akureyri sem var stofnað sl. sumar og sýndi frumsamin barnasöngleik eftir Pétur Guðjónsson um ævintýri Gutta & Selmu. Nú fer hið nýlega stofnaða leikfélag í aðrar áttir og býður upp á þekktan gamanleik sem sýndur hefur verið um land allt og allan heim og kitlað hláturtaugar.
Pétur Guðjónsson er stofnandi leikhópsins en nafnið, Draumaleikhúsið, er m.a. tilkomið af myndinni Hvar er draumurinn? sem er eftir Pétur og verður gefin út undir nafni Draumaleikhússins. „Ég hef sankað að mér hóp af góðu fólki sem mun fara í ýmsar áttir í verkefnavali. Bæði frumsamin og ófrumsamin verk,“ segir Pétur.
Fullkomið brúðkaup er norðlendingum að góðu kunnugt en Leikfélag Akureyrar setti verkið upp leikárið 2005-2006 og setti aðsóknarmet. Leikverkið gerist á hóteli á brúðkaupsdaginn hjá Rakel og Bjarna en eins og gjarnan er í gamanleikjum fer ýmislegt úrskeiðis. Sýningar verða í Hömrum Hofi og er frumsýning 1.mars. Miðasala hefst á mak.is þann 18.febrúar.
Leikarar í sýningunni eru Bernharð Arnarsson, Freysteinn Sverrisson, Inga María Ellertsdóttir, Kolbrún Lilja Guðnadóttir, Símon Birgir Stefánsson og Sjöfn Snorradóttir. Leikstjóri er Pétur Guðjónsson og aðstoðarleikstjóri Jokka G.Birnudóttir. Uppsetningin er í samstarfi við Orum og 1862 Nordic Bistro.