Brúnir Gallerí Eyjafjarðarsveit

Raja / Takmörk er málverkasýning sem opnuð verður í dag sunnudaginn 11.júní í Brúnir Gallerí, Eyjafjarðarsveit, milli kl.14-18. Sýningin stendur til 22.júlí og er opin daglega frá kl.14-18 

Raja / Takmörk er finnskt-íslenskt samstarfsverkefni þeirra TiinaRauni og Birgis Rafns Friðrikssonar-BRF. Þau kynntust í listaskóla í Lahti í Finnlandi er Birgir Rafn var skiptinemi þar um aldamótin og hafa þau verið vinir síðan. Einar Gíslason listmálari og staðarhaldari á Brúnum kynntist svo Tiina er hann sótti Finnland heim og hvatti Tiina að heimsækja hann á Íslandi. Til að gera langa sögu stutta varð úr áætlun um að Tiina og Birgir Rafn myndu sýna hjá honum í Brúnir Gallerí, en Covidnáði að skjóta öllu á frest um skeið. Nú er hins vegar sá faraldur fyrir bí og biðin á enda. Vonast þau til að efla megi menningarlegt samstarf landanna því að Finnar og Íslendingar eiga svo margt sameiginlegt.

 Sýningarheitið Raja / Takmörk kom til í samtali Tiina Rauni og Birgis Rafns. Bæði eru þau að vinna á einhverskonar mörkum eða landamærum. 

Tiina hefur undanfarin 3 ár verið að þróa stíl sem kallast sgraffito. Það er aðferð sem er ekki fyrir óþolinmóða þar sem unnið er í mörgum lögum og skrapað niður til að fá eftirsóknarverða áferð. Verkin hennar eru aðallega náttúruverk, en hið mannlega er þó undirliggjandi í þeim, í sjálfu ferlinu. 

 Birgir Rafn - BRF hefur undanfarin 13 ár verið að vinna með umhverfi líka, aðallega náttúru og landslag. Hans sjónarhóll eða útgangspunktur er mörkin á milli hins raunverulega og hins ímyndaða, líkt og spurningunni “Hvað er landslag?” sé enn ekki svarað. Málverkin hans eru því af ýmsum toga, eru “sjónrænir og stundum hugmyndafræðilegir leikir” eins og hann segir sjálfur.  Málunaraðferðir Birgis Rafns eru fjölbreyttar og virðast henta þema hvers verks fyrir sig, allt frá hraðri og frjálslegri notkun pallettuhnífs yfir í yfirlagða nákvæmni.

Nýjast