Brot af því besta í Freyvangi
Á 60 ára afmælinu setur Freyvangsleikhúsið upp metnaðarfyllstu leiksýningu, sem hér er sýnd um þessar mundir enda ekki um annað að ræða ef undan er skilin sýningin Kvenfólk hjá LA í túlkun tveggja ágætra manna, sem kalla sig Hundur í óskilum. Lítið annað hefur verið í boði hjá LA nema lélegar tveggja manna sýningar á 100 ára afmæli leikfélagsins og bara heimtaðir meiri peningar.
Það er tilkomumikið og ánægjulegt að eiga kvöldstund með Freyvangsleikhúsinu, nú með leikurum, sem í stórum hópi leggja sig alla fram af
miklum metnaði, dugnaði og gleði í sínum hlutverkum. Þarna er um að ræða leiksýningu þar sem stiklað er á stóru úr mörgum völdum sýningum, Brot af því besta, sem settar hafa verið á svið í gegnum árin. Mest unnið í sjálfboðavinnu og eins og fyrr segir af einskærri gleði.
Það er við hæfi að sýningin byrji á efni úr verkinu Halló Akureyri þar sem gleðin ríkir með hæfilegu fylleríi og gleðskap. Þá kemur
atriði úr stórsýningunni Fiðlaranum á þakinu með Einari Inga Hermannssyni í aðalhlutverki og með sinni sterku rödd skilar hann sínu hlutverki vel.
Atriði úr Dýrunum í Hálsaskógi var ekki hægt að undanskilja enda Mikki refur þar á ferð, vel leikinn af Stefáni Guðlaugssyni, og öðrum vel þekktum í hlutverki músarinnar, Helga Þórssyni.
Góði dátinn Svejk, leikinn af Hjálmari Arinbjarnarsyni, var í áberandi hlutverki og einnig kvenhlutverk, sem hann lék úr Kvennaskólaævintýrinu, fór
Hjálmar á kostum og hef ég ekki séð hann betri fyrr. Ekki má gleyma Soffíu frænku í Kardimommubænum, sem Sædís Gunnarsdóttir skilaði af mikilli prýði.
Að lokum sameinuðust allir leikararnir í atriði úr ABBAsöngleiknum Mamma Mía og mátti þar heyra margar góðar söngraddir, ekki síst
kvenraddirnar, sem gerðu í því að gera gott kvöld betra. Ekki get ég látið staðar numið án þess að minnast á sögumenn, sem komu fram á milli atriða, stórskemmtilegir svo salurinn oft og tíðum sprakk úr hlátri.
Þetta var ógleymanleg kvöldstund og hvet ég Akureyringa og Eyfirðinga alla að njóta stórkostlegrar kvöldstundar með áhugaleikurunum í Freyvangsleikhúsinu því það er sannanlega þess virði. Mig langar að taka það fram að vegna einhverra kosta og gæða í verkefnavali hlýtur það að vera að margoft hafi þessu litla áhugamannaleikfélagi verið boðið til að sýna í sjálfu Þjóðleikhúsinu.
Að lokum, af því mér barst til eyrna að toppurinn á leikhúsferð í Freyvang væri að byrja á að gæða sér á glæsilegu
innihaldi leikhúsmatseðils hjá LambInn á Öngulstöðum, læt ég það fylgja hér með.
-Hjörleifur Hallgríms